Walmart byggir kröfur sínar á leiðbeiningum FAO

Walmart byggir kröfur sínar á leiðbeiningum FAO

23 mars 2011

Walmart statementWalmart logo

„Iceland Responsible Fisheries“ verkefnið var kynnt á sjávarútvegssýningunni í Boston sem haldin var dagana 20.-22.mars. Íslandsstofa skipulagði þátttöku nokkurra íslenskra fyrirtækja auk annarra fyrirtækja sem sýndu á eigin vegum.

Meðan á sýningunni stóð birti Walmart yfirlýsingu um breytingu á innkaupastefnu á sjávarafurðum, eins og John Sacton lýsti í umfjöllun sinni á fréttamiðlinum Seafoodnews.com (Daily News). Breytingarnar fela m.a. í sér að Walmart mun byggja kröfur sínar um innkaup á sjávarafurðum m.t.t. ábyrgra fiskveiða (Sustainable Seafood Policy) á þeim viðmiðunum og stöðlum sem settar eru í FAO leiðbeiningum, en um er að ræða faggilta vottun þriðja aðila eins og Íslendingar hafa valið fyrir fiskveiðar sínar. Þar með er sú vottun sem þorskveiðar Íslendinga hefur hlotið, tekin góð og gild hjá fyrirtækinu og greiðir það götu íslenskra fyrirtækja í sölu á sjávarafurðum. Þetta er mikilvægur áfangi þar sem um er að ræða leiðandi verslunarkeðju í smásölu í Bandaríkjunum og getur þetta haft áhrif á kröfur fleiri kaupenda varðandi vottun á ábyrgum veiðum, staðla og viðmiðanir þar að lútandi.

Alaska hefur einnig fetað í fótspor Íslendinga og á sjávarútvegssýningunni í Boston var tilkynnt að laxveiðar við Alaska hafa hlotið vottun skv. sambærilegu kerfi og þorskveiðar Íslendinga. Á kynningarfundi sem Alaska hélt í Boston þökkuðu þeir Íslendingum frumkvæði í að koma á vottunarverkefni sem grundvallað er á FAO viðmiðunum og töldu þá hafa rutt leiðina í þessum efnum fyrir aðra.

Sjá nánari upplýsingar um yfirlýsingu Walmart og frétt á eftirtöldum tenglum:

Seafoodnews.com

Vefsíða Walmart og Sustainable Seafood Policy