Ábyrgar þorskveiðar staðfestar með vottun

Ábyrgar þorskveiðar staðfestar með vottun

9 mars 2011

Icelandic Cod CertificateVeiðar Íslendinga á þorski í íslenskri fiskveiðilögsögu hafa hlotið vottun sem byggist á ströngustu kröfum sem settar eru á alþjóðavettvangi. Vottunin staðfestir ábyrga fiskveiðistjórnun og góða umgengni um auðlindir sjávar.

Fiskifélag Íslands, sem í eru helstu samtök hagsmunaaðila í íslenskum sjávarútvegi, hafði forgöngu um að byggja upp vottunarverkefnið á Íslandi, en það byggir á alþjóðlegum staðli; leiðbeinandi reglum matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) um vottun fiskveiða og siðareglum FAO um ábyrgð í fiskimálum. Írska fyrirtækið Global Trust Certification, sem er óháð vottunarstofa sem hlotið hefur faggildingu samkvæmt ISO staðli, var fengið til að gera úttekt á stefnu og framkvæmd í þorskveiðum Íslendinga og hefur nú lokið þessara úttekt og gefið út vottorð  sem staðfestir að þorskveiðarnar samræmist alþjóðlegum kröfum.

Peter Marshall, framkvæmdastjóri Global Trust Certification sagði við afhendingu á vottunarskírteininu í Sjóminjasafninu Víkinni í dag: „Þessi vottun þriðja aðila sem mætir kröfum í siðareglum og leiðbeiningarreglum FAO í fiskveiðimálum sýnir að þorskveiðum Íslendinga er vel stjórnað og af ábyrgð. Ég vil óska íslenskum sjávarútvegi og hagsmunaðilum til hamingju. Ísland hefur hér rutt veginn í vottunarmálum sem fleiri þjóðir og svæði eru nú í auknum mæli að fara, m.a. Alaska og Kanada.“ 

Vottunin er mikilvæg fyrir íslenskan sjávarútveg sem fær nú staðfest að greinin mætir kröfum markaðarins um sjálfbæra nýtingu endurnýjanlegra auðlinda. Markmiðið með verkefninu „Iceland Responsible Fisheries“ er að efla bæði innra starf í greininni og kynningu erlendis á íslenskum sjávarafurðum. Gerður hefur verið samningur við Íslandsstofu um kynningu og markaðssetningu.

Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði í ræðu sinni: „Þessi áfangi er mikilvægur fyrir Ísland og sýnir að okkar ábyrga fiskveiðistjórnun er að skila því sem til er ætlast. Við sjáum fram á að íslenskar sjávarafurðir eigi enn greiðari leið inn á mikilvæga markaði og að útflutningstekjur af sjávarafurðum verði áfram mikilvæg burðarstoð í okkar efnahagslífi.“

Íslenskur sjávarútvegur skilaði þjóðarbúinu 209 milljörðum í gjaldeyristekjur árið 2009 og hefur verðmæti afurðanna aukist þrátt fyrir minni afla, enda hafa fyrirtæki í sjávarútvegi sinnt nýsköpun af miklum krafti; þróað nýjar afurðir, bætt nýtingu og leitað nýrra markaða. Útflutningur á þorskafurðum er 36% af heildarverðmæti útfluttra sjávarafurða.

Nánari upplýsingar um vottunina og verkefnið veita:

Finnur Garðarsson, verkefnisstjóri hjá Fiskifélagi Íslands,
finnur@fiskifelag.is, gsm 896 2400

Guðný Káradóttir, markaðsstjóri IRF hjá Íslandsstofu,
gudny@islandsstofa.is, gsm 693 3233,

Peter Marshall, framkvæmdastjóri Global Trust,
petermarshall@GTcert.com, GTCERT.com