Vel heppnuð kynning í London

Vel heppnuð kynning í London

9 mars 2011

Iceland Responsible Fisheries WorkshopÞann 3. febrúar 2011 var haldin ráðstefna í sendiráði Íslands í London um ábyrgar fiskveiðar Íslendinga og vottun veiða úr íslenska þorskstofninum. Mikill áhugi var fyrir ráðstefnunni en hana sóttu um 60 manns. Meðal þátttakenda voru kaupendur á fiski, fulltrúar frá verslanakeðjum í Bretlandi, þingmenn og sendiherra Bretlands á Íslandi.

Sendiherra Íslands í Bretlandi, Benedikt Jónsson, flutti opnunarræðu og stýrði ráðstefnunni. dr. Kristján Þórarinsson stofnvistfræðingur hjá LÍÚ, sem leitt hefur vottunarverkefnið á vegum Fiskifélags Íslands, sagði frá alþjóðlegum kröfum sem vottunin byggir á, ferli vottunarinnar og hvað er framundan. Peter Marshall framkvæmdastjóri Global Trust á Írlandi, sem vottaði veiðar úr þorskstofninum, sagði frá grundvelli vottunarinnar og þeim faglegu kröfum sem gerðar eru til vottunaraðila. Hann gerði líka grein fyrir hvað önnur lönd eru að gera í vottunarmálum – sambærilegt við þá leið sem Ísland hefur farið – m.a. Alaskamenn. Eggert Benedikt Guðmundsson forstjóri HB Granda sem er formaður fagráðs sjávarútvegs hjá Íslandsstofu fjallaði um markaðsáhrif vottunar og samstarf í markaðssetningu. Þá voru einnig erindi frá Jóhanni Sigurjónssyni forstjóra Hafrannsóknastofnunarinnar um ástand og horfur í veiðum á helstu fisktegundum og erindi frá Tómasi H. Heiðar, þjóðréttarfræðingi utanríkisráðuneytisins um alþjóðalög og samninga um stjórnun veiða úr deilistofnum og makrílveiðar Íslendinga.

Ráðstefnan var samvinnuverkefni sendiráðsins í London, Landssambands íslenskra útvegsmanna og Íslandsstofu.

Iceland Responsible Fisheries Workshop

Peter Marshall

Audience workshop in London