Vel heppnuð þátttaka í China Fisheries and Seafood Expo
Iceland Responsible Fisheries tók þátt í sjávarútvegssýningunni í Qingdao í Kína, 4.-6. nóvember sl. Íslandsstofa skipulagði þátttöku íslenskra aðila á þjóðarbás en þetta er í 20. sinn sem sýningin er haldin og hefur Ísland verið með frá upphafi.
Sjávarútvegssýningin er sú stærsta sinnar tegundar i Asíu og fór hún fram í nýrri og glæsilegri sýningarhöll rétt fyrir utan borgina Qingdao þar sem yfir 1300 fyrirtæki frá 46 löndum taka þátt. Gestir voru um 25.000. Mikill fjöldi fólks heimsótti íslenska básinn alla þrjá sýningardagana. Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, var sérstakur heiðursgestur á sýningunni. Íslensku fyrirtækin sem voru á þjóðarbásnum, auk Íslandsstofu og Iceland Responsible Fisheries, voru Iceland Pelagic, HB Grandi, Tríton, VSV og Icelandic.
Millistéttin í Kína hefur meiri fjárráð en áður og hefur komið fram í neyslukönnunum að Kínverjar eyða nú stærri upphæðum í matvæli og þá sérstaklega í sjávarafurðir. Þetta býður m.a. upp á aukin tækifæri fyrir útflutning á íslensku sjávarfangi til Kína sem og fríverslunarsamningurinn.
Áhugi er á kynningu á íslenskum afurðum í Kína og hafa tvö fyrirtæki nú þegar gert samning um að nota Iceland Responsible Fisheries upprunamerkið á íslenskar afurðir sem þeir selja í Kína.