Íslenski þorskurinn vinsæll á franska markaðnum
Miðvikudaginn 18. nóvember sl. stóðu Iceland Responsible Fisheries og Íslandsstofa fyrir kynningarfundi um stöðu íslenskra sjávarafurða á Frakklandsmarkaði. Fundurinn var haldinn á Grand hótel Reykjavík og mættu rúmlega 50 manns, ásamt 20 nemendum frá Háskólanum á Akureyri sem fylgdust með fundinum á netinu.
Björgvin Þór Björgvinsson, verkefnastjóri á matvælasviði Íslandsstofu, hélt erindi um þróun útflutnings íslenskra sjávarafurða til Frakklands síðustu ár. Í erindi hans kom m.a. fram að útflutningur á ferskum þorski til Frakklands hefur aukist mjög mikið á síðustu árum en árið 2014 var Frakkland langstærsti markaðurinn með 42% af útflutningsverðmætum ferskra þorskafurða.
Marie Christine Monfort, ráðgjafi í markaðssetningu sjávarafurða, var með kynningu á tækifærum Íslands til að ná fótfestu á verðmætari hluta franska markaðarins, einkum með þorskafurðir. Í erindi sínu fjallaði Marie Christine um stöðu íslenska þorsksins á franska markaðnum í samanburði við samkeppnislönd. Hún talaði um mikilvægi þess að draga fram sérstöðu íslenska þorsksins, einkum í ljósi mikillar samkeppni á markaðnum. Að hennar sögn felst ein helsta áskorunin fyrir seljendur íslenskra sjávarafurða í því að ná betur til almennings þar sem tengingin á milli þorsksins og Íslands er ekki alltaf skýr í augum franskra neytenda. Töluverð tækifæri eru fyrir íslenskan þorsk á veitingahúsamarkaðnum í Frakklandi og þá helst á meðaldýrum veitingastöðum þar sem algengt er að hafa þorsk á matseðlum.
Í lok fundar var opnað fyrir umræður og komu ólíkar og áhugaverðar spurningar úr sal.
Hér er má sjá upptöku frá fundinum
Hér má sjá glærur Marie Christine