Veiðar á ýsu, ufsa og gullkarfa komnar í vottunarferli
Veiðar á þremur mikilvægum fiskistofnum við Ísland eru nú komnar í formlegt vottunarferli samkvæmt kröfum og leiðbeiningum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO); ýsu, ufsa og gullkarfa. Um er að ræða sama kerfi og viðmiðanir og vottað var eftir þegar þorskveiðar fengu vottun í desember sl.
Þetta skref er mikilvægt framhald fyrir aðgengi að helstu mörkuðum þar sem gerðar eru strangar kröfur um vottun þriðja aðila og sjálfbæra nýtingu auðlinda. Global Trust Certification á Írlandi tekur veiðarnar út en umsækjendur um vottun eru hagsmunaaðilar í veiðum og vinnslu; Samtök fiskvinnslunnar (SF), Landssamband íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) og Landssamband smábátaeigenda (LS) sem hafa sameinast um vottunarverkefnið undir merkjum Iceland Responsible Fisheries í félaginu Ábyrgar fiskveiðar ses. Íslandsstofa sér um markaðsmál verkefnisins og skipuleggur m.a. kynningarfund um ábyrgar fiskveiðar og markaðssetningu sjávarafurða samhliða Íslensku sjávarútvegssýningunni í september.
Undirbúningur vottunar er þegar hafinn og Global Trust hefur valið teymi sérfræðinga til að vinna að vottuninni. Framvinda vottunarferlisins mun verða kynnt á vefsíðunni www.ResponsibleFisheries.is.
Mikilvægt sem næsta skref í vottunarmálum
„Auðlindir sjávar eru mikilvægar og okkur ber að varðveita þær til framtíðar með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi. Vottun undir merkjum Iceland Responsible Fisheries er liður í því að efla samkeppnisstöðu íslenskra sjávarafurða og tryggja framtíðaraðgengi að öllum helstu mörkuðum. Ýsan, ufsinn og gullkarfinn ásamt þorskinum vega þungt í útflutningsverðmæti sjávarafurða og því eðlilegt næsta skref í vottunarmálum okkar“ segir Gunnar Tómasson, formaður stjórnar Ábyrgra fiskveiða ses. og framkvæmdastjóri framleiðslu og sölumála hjá Þorbirninum í Grindavík.
Um er að ræða veiðar innan íslenskrar fiskveiðilögsögu undir stjórn íslenskra yfirvalda. Umsóknin er studd af öllum hagsmunaaðilum og mun vottunin, ef fæst, ná yfir öll veiðarfæri og veiðisvæði innan lögsögunnar. Hún nýtist öllum íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum, sem og öðrum aðilum í virðiskeðjunni við sölu á afurðum úr ýsu, ufsa og gullkarfa á öllum mörkuðum.
Strangar alþjóðlegar kröfur eru viðmið vottunar
Vottunin byggir á ströngustu alþjóðlegu kröfum sem ákveðnar hafa verið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna með þátttöku, stuðningi og samþykkt aðildarlanda og aðkomu sérfræðinga og umhverfisverndarsamtaka. Um er að ræða leiðbeinandi reglur um vottun fiskveiða og siðareglur FAO um ábyrgð í fiskimálum. Faggilding vottunaraðilans byggir á ISO 65 staðli.Helstu kröfur um óháða vottun á veiðum fela í sér:
- Vel skipulagt fiskveiðistjórnunarkerfi þar sem markmiðið er að veiðar séu í samræmi við útgefið aflamark sem stjórnvöld fiskveiða ákveða.
- Koma skal í veg fyrir ofveiði með því að byggja ákvörðun um veiðar á vísindalegri ráðgjöf og þátttöku óháðra erlendra vísindamanna.
- Framkvæmd og lögmæti veiðanna er fylgt eftir af öflugum eftirlitsstofnunum.
- Áhrif veiðanna á vistkerfið eru takmörkuð með skilgreindum aðferðum.
Nánari upplýsingar veita:
Guðný Káradóttir, markaðsstjóri Iceland Responsible Fisheries,
gudny@islandsstofa.is, sími 511 4000 / 693 3233
Finnur Garðarsson, verkefnastjóri hjá Ábyrgum fiskveiðum ses,
finnur@fiskifelag.is, sími 591 0398 / 896 2400
Dave Garforth, Assessment Leader, Global Trust Certification Ltd., davegarforth@gtcert.com, www.GTcert.com