Óska Íslendingum til hamingju með vottun

Óska Íslendingum til hamingju með vottun

23 september 2011

Erlendir sérfræðingar telja hina íslensku leið, að tengja saman kynningu á uppruna sjávarfangs og vottun veiða, vænlega til árangurs og óskuðu þeir Íslendingum til hamingju með vottun á veiðum. Þetta kom fram á hádegisfundi Iceland Responsible Fisheries um markaðs- og sölumál sjávarafurða og kröfur kaupenda í Kópavogi í gær fimmtudaginn 22. september.

John Sackton, Guðný Káradóttir, Peter Vassallo

„Allar helstu verslunarkeðjur Bretlands hafa markað sér stefnu hvað varðar sölu á sjálfbærum sjávarafurðum,“ sagði Peter Vassallo, eigandi Cumbrian Seafoods í Bretlandi, á hádegisfundi Iceland Responsible Fisheries og Íslandsstofu um markaðs- og sölumál sjávarafurða og kröfur kaupenda sem haldinn var í tengslum við Íslensku sjávarútvegssýninguna.

Peter Vassallo er brautryðjandi í sölu á íslenskum fiski til Bretlands. Hann segir miklar kröfur gerðar um vottun á veiðum í sölu á sjávarafurðum og nefnir sem dæmi að verslunarkeðjur á borð við Sainsbury’s, Tesco og M&S hafi sett sér stefnu um að selja eingöngu vörur sem hafi vottun eða séu í vottunarferli. Það sé því afar mikilvægt að geta sýnt fram á rekjanleika í öllu vinnsluferlinu og sjálfbærni fiskistofna. Ávinningur vottunar sé mikill: „Verslunarkeðjan Waitrose, sem hefur selt íslenskan fisk frá árinu 1987, fór til að mynda í mikla auglýsingaherferð í kjölfar sjálfbærnisvottunar íslenska þorskstofnsins. Það skilaði sér í gríðarlegri söluaukningu.”

Krafa um vottun kemur frá smásölum

Á fundinum var einnig John Sackton, markaðsgreinir í sjávarútvegi og ritstjóri SeafoodNews.com, og fór hann yfir þróun á markaði og reynslu Bandaríkjanna af sölu á sjávarafurðum úr vottuðum fiskistofnum. Hann segir kröfur smásöluaðila, hvað varðar kaup fiskafurðum úr sjálfbærum stofnum, vera komna frá þeim sjálfum fyrir tilstuðlan ýmissa umhverfissamtaka: „Umhverfissamtök beittu sér fyrir því að ná til smásala, upplýsa þá og fræða. Fljótlega var ljóst að samræmda vottun og staðla skorti og því stofnuðu World Wildlife Fund og fleiri samtök  MSC vottunina, sem hefur verið notuð víða. Wal-Mart lýsti því svo yfir árið 2006 að á næstu 3-6 árum yrði allur sjávarafurðir í verslunum þeirra MSC vottaðar.“ Svipuð þróun hefur átt sér stað í Bretlandi, eins og kom fram í erindi Vassallo. Hins vegar hefur Wal-Mart nú breytt stefnu sinni og mun kaupa afurðir úr stofnum sem hlotið hafa sambærilega vottun og MSC, en einskorðar sig ekki við þá vottun.

Styr um MSC vottun

Sackton segir nokkurn styr hafa staðið um MSC vottunina og fljótlega hafi margar aðrar sambærilegar vottanir komið til sögunnar. Til að mynda hafi Alaskaríki hætt að nota MSC vottun sökum mikils kostnaðar og að uppbygging orðspors tengt uppruna væri ekki nægilega vel tryggð. Alaskamenn séu því komnir með vottun þriðja aðila byggða á FAO viðmiðunum, líkt og Íslendingar hafi kosið að gera undir merkjum Iceland Responsible Fisheries: „Það er lykilatriði að slíkar vottanir séu samkvæmt kröfum og leiðbeiningum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO), eins og gerist með vottun Íslendinga. Smásöluaðilar hafa lagt sig fram um að skilja sjálfbærni í sjávarútvegi og kaupa fremur fisk úr stofnum sem hefur hlotið vottun. Slíkt skapar skýra markaðsyfirburði.”

Íslensk ýsa, ufsi og gullkarfi í vottunarferli

Guðný Káradóttir, markaðsstjóri Iceland Responsible Fisheries, segir að verkefnið Iceland Responsible Fisheries hafi verið sett á laggir til að koma upplýsingum um íslenskan uppruna og ábyrgar fiskveiðar Íslendinga á framfæri á mörkuðum fyrir íslenskar sjávarafurðir, einkum við stóra kaupendur erlendis: „Íslenskar þorskveiðar voru vottaðar sjálfbærar í desember á síðasta ári og nú er unnið að vottun þriggja annarra fisktegunda:  ýsu, ufsa og gullkarfa. Með markvissu innra starfi sjávarútvegsins og þessu kynningarátaki, undir merkjum Iceland Responsible Fisheries, má stuðla enn frekar að því að treysta stöðu íslenskra sjávarafurða á samkeppnismörkuðum í sessi og sýna ábyrgð í verki.“

Nánari upplýsingar veitir Guðný Káradóttir markaðsstjóri Iceland Responsible Fisheries hjá Íslandsstofu: 693 3233 / gudny@islandsstofa.is.