Ábyrgar fiskveiðar kynntar á íslensku sjávarútvegssýningunni í september 2011
Sífellt strangari kröfur eru gerðar til ábyrgra fiskveiða á alþjóðavettvangi, hjá alþjóðastofnunum og meðal kaupenda sjávarafurða. Upprunamerki fyrir íslenskar sjávarafurðir og vottun ábyrgra fiskveiða Íslendinga er markaðstæki sem gefur framleiðendum og seljendum íslenskra sjávarafurða tækifæri til að staðfesta frumkvæði sitt í að mæta kröfum markaðarins með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi. Á Íslensku sjávarútvegssýningunni sem haldin verður 22.-24. september kynnum við framkvæmd verkefnisins og hvernig íslensk fyrirtæki og aðilar í virðiskeðjunni í sölu á sjávarafurðum frá Íslandi geta nýtt sér verkefnið í markaðssetningu.
Umræðufundur
Iceland Responsible Fisheries (IRF) efnir til umræðu um ábyrgar fiskveiðar og markaðssetningu undir merkjum IRF. Fundurinn er haldinn samhliða Íslensku sjávarútvegssýningunni í Kópavogi 22. september kl. 15. Fjallað verður um þróun markaða (trends) m.t.t. ábyrgra fiskveiða og áherslur í markaðssetningu erlendis; reynslu af mismunandi áherslum í markaðssetningu og gildi þess að kynna uppruna sjávarafurða frá Íslandi. Nánari upplýsingar veitir Guðný Káradóttir, markaðsstjóri IRF hjá Íslandsstofu, gudny@islandsstofa.is.