Veglegur styrkur úr AVS sjóðnum

16 maí 2012

Tilkynnt hefur verið hvaða verkefni fengu styrk úr AVS sjóðnum að þessu sinni. Iceland Responsible Fisheries (IRF) hlaut veglegan styrk að upphæð 12,5 mkr til að sinna markaðs- og kynningarstarfi. Þessi úthlutun skiptir verkefnið miklu máli og er viðurkenning á því starfi sem verið er að vinna í að kynna uppruna sjávarafurða og ábyrgar fiskveiðar Íslendinga undir merkjum IRF. Íslandsstofa sinnir kynningarstarfi verkefnisins með samningi við Ábyrgar fiskveiðar ses.

Markaðsstarf í sölu á sjávarafurðum hefur í vaxandi mæli mótast af kröfum um sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins og er verkefnið sett á laggirnar til að mæta þessum kröfum. Meginmarkmið Iceland Responsible Fisheries er að treysta enn frekar stöðu íslenskra sjávarafurða á erlendum mörkuðum, styrkja ímynd Íslands sem upprunalands sjávarafurða, þ.a. Ísland njóti trausts og virðingar fyrir að stunda ábyrgar fiskveiðar. Þetta er gert með sérstöku upprunamerki og vottun á fiskistofnum í íslenskri lögsögu sem grundvallast á alþjóðlega viðurkenndum kröfum FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Kynningarstarfið beinist einkum að kaupendum og dreifingaraðilum erlendis (B2B). Á sjávarútvegssýningunni í Brussel í síðasta mánuði var haldinn fjölmennur fundur í samstarfi við Alaskamenn, en þeir hafa valið að fara sömu leið í vottunarmálum og Íslendingar. Sú leið (FAO-based Certification) nýtur vaxandi fylgis víða um heim. Nánari upplýsingar um fundinn og allar upplýsingar um verkefnið er að finna á vefsíðu verkefnisins, www.ResponsibleFisheries.is. Þar eru m.a. birt stutt myndskeið um íslenskan sjávarútveg og ábyrgar fiskveiðar sem framleidd hafa verið á nokkrum tungumálum.