Forseti Íslands talaði á hádegisverðarfundi í Brussel

Forseti Íslands talaði á hádegisverðarfundi í Brussel

24 apríl 2012

Iceland Responsible Fisheries (IRF) og Alaska Seafood Marketing Institute (ASMI) héldu sameiginlegan hádegisverðarfund á sjávarútvegssýningunni í Brussel í dag undir yfirskriftinni "The Evolution of Sustainability and the Role of Choice". Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson var aðalræðumaður fundarins og hélt erindi um ábyrgar fiskveiðar og framtíð hafsins (Responsible Fisheries and the Future of the Oceans). Á fundinum flutti einnig erindi Cora Campbell yfirmaður Alaska Dept. of Fish and Game. Erindi hennar hét "Alaska Steeped in History of Responsible Stewardship".

Hr. Ólafur Ragnar Grímsson

Fundurinn var vel sóttur af kaupendum og viðskiptavinum íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja og fyrirtækja í Alaska, auk fleiri hagsmunaaðila.

Cora Campbell frá Alaska talaði um val í vottunarmálum og markaðsaðgengi fyrir sjávarafurðir. Hún þakkaði Íslendingum frumkvæði í að skapa vandaðan valkost í vottun á ábyrgum fiskveiðum. Hún lagði áherslu á mikilvægi þess að hafa það ekki í höndum eins einkaaðila að meta hver geti selt fisk og hver ekki. Sjá útdrátt af erindi hennar hér.

Forsetinn fjallaði um sjávarútveginn og hlutverk hans í uppbyggingu í landinu, skipulag veiða, vísindarannsóknir og grundvöll þeirra í ákvörðun um veiðar. Hann kom inn á hlut upplýsingatækni í eftirliti og rekjanleika afurða, sagði frá eftirliti með veiðum og aðgerðum til að sporna við ofveiði, lokun veiðisvæða o.þ.h. Forsetinn greindi frá því að sendinefnd frá Google væri væntanleg til Íslands á næstunni og hyggst forsetinn kynna henni við íslenska eftirlitskerfi með skipum og veiðum.  Sjá nánar í frétt á vef forsetaembættisins.

Steve Hedlund blaðamaður gerir fundinum ágæt skil á SeafoodSource.com sem og John Sackton á SeafoodNews.com. Stutt video frá fundinum er hægt að skoða á vef Seafood Source.

Forsetinn gekk einnig um sýninguna og heimsótti íslensku fyrirtækin og kynnti sér starfsemi þeirra og viðskipti við erlenda aðila eins og lesa má nánar um á vef forsetaembættisins.

Í lok dags var svo haldin móttaka sem Íslandsstofa og Sendiráðið í Brussel stóðu fyrir.  Forsetinn var viðstaddur og ávarpaði gesti.