Tvö þúsund saltfiskkökur í portúgalska maga

Tvö þúsund saltfiskkökur í portúgalska maga

13 nóvember 2014

Dagana 5. og 6. nóvember fór fram kynning á íslenskum saltfiski í norðurhluta Portúgal en hún er liður í markaðsverkefni Íslandsstofu og Íslenskra saltfiskframleiðenda undir kjörorðinu smakkaðu og deildu (með þér) leyndarmáli íslenska saltfisksins.

Rík hefð er fyrir saltfiskneyslu í Portúgal og er íslenski saltfiskurinn fluttur út blautverkaður og þurrkaður og fullunninn af framleiðendum í Portúgal. Margir þeirra eru með starfsemi í Gafanha da Nazaré við Aveiro þar sem haldinn var fundur með kaupendum og dreifingaraðilum á íslenskum saltfiski. Þema fundarins var gæði og nýsköpun. Fjórir fyrirlesarar voru með erindi á fundinum: Níels A. Guðmundsson frá Iceland Seafood sem gaf yfirlit yfir þróun viðskipta og framboð af fiski frá Íslandi, Vitor Lucas frá portúgalska fyrirtækinu Lugrade sem leggur áherslu á að kynna íslenskan uppruna á afurðum sínum, Pedro Costa frá Marel sem kynnti tækninýjungar og Guðný Káradóttir frá Íslandsstofu sem sagði frá áherlum í markaðsverkefninu og ræddi samstarfið við portúgölsku fyrirtækin. Almenn ánægja var með fundinn og góð mæting.  Að fundinum loknum var sameiginlegur hádegismatur fyrir þátttakendur þar sem íslenskur saltfiskur var í aðalhlutverki.

Daginn fyrir kynningarfundinn var almenningi í miðborg Porto boðið upp á að smakka íslenskan saltfisk matreiddan á portúgalska vísu. Fólk tók þessu framtaki vel og fóru um tvö þúsund saltfiskkökur ofan í svanga portúgalska maga. 

Portúgalir eru stærstu neytendur á saltfiski í heiminum og er neysla á saltfiski stöðug allt árið en nær þó hápunkti um jólin. Portúgal er mjög mikilvægur markaður fyrir íslenskan saltfisk en frá 2005 hefur útflutningur þangað verið á bilinu 8-12 þúsund tonn aðallega flattur saltfiskur.

Á árinu 2014 hafa 24 íslensk fyrirtæki sameinast að kynna íslenskar saltfiskafurðir í Suður Evrópu undir kjörorðinu "Taste and share the secret of Icelandic Bacalao" en verkefnið hófst 2013. Gæði og uppruni vörunnar eru meginskilaboðin og hafa viðburðir erlendis og vef- og samfélagsmiðlar m.a. verið nýttir til að ná til neytenda í löndunum þremur: Spáni, Portúgal og Ítalíu. 

Hér má sjá vefsíðu fyrir verkefnið á portúgölsku og hér að neðan má finna tengla inn á samfélagsmiðla verkefnisins í Portúgal:

Facebook 
Youtube 
Twitter

Nánari upplýsingar um verkefnið veita:

Guðný Káradóttir, gudny@islandsstofa.is, sími 511 4000
Björgvin Þór Björgvinsson, bjorgvin@islandsstofa.is, sími 511 4000

Hér að neðan má sjá myndir frá Gafanha da Nazaré og Porto