Franski matarbloggarinn Hervé Palmieri heillaðist af Íslandi
Hinn franski matarbloggari, Hervé Palmieri, kom hingað til lands í um miðjan október til að kynna sér íslenskan mat og matarmenningu. Hervé er einn vinsælasti matarbloggarinn í Frakklandi og hefur haldið úti vefsíðunni HervéCuisine.com og YouTube-síðu síðan 2007. Hervé kom hingað í tengslum við vetrarherferð Inspired by Iceland og fékk hann tvo daga til þess að fá innsýn í matarmenningu Íslendinga, kynnast íslensku hráefni og elda úr því.
Þorskur, humar og lambakjöt var í forgrunni og var Hervé virkilega ánægður með hráefnið. Eftir að hafa heimsótt fiskvinnsluna hjá Einhamri í Grindavík eldaði Hervé þorsk á veitingastaðnum Hafið bláa. Lambakjötið eldaði Hervé í Árdal í Borgarfirði og heimsótti sauðfjárbúið á Varmalæk. Uppskriftirnar voru fengnar hjá Íslenska kokkalandsliðinu.
Myndatökumaður var með í för og mun Hervé setja myndskeið af matseldinni inn á síðurnar sínar á næstu dögum. Á vefnum er nú þegar er að finna myndskeið frá dvöl Hervés á Íslandi og frá því hann eldaði humarsúpu með íslenskum humri áður en hann kom til landsins, í kynningarskyni fyrir Íslandsævintýrið. Auk heimsóknanna og matargerðarinnar fór Hervé í ferð um Reykjanesið, Hveragarðinn í Hveragerði og upplifði veitingastaðaflóru Reykjavíkur. Heimasíða Hervé Palmieri