Þrjár fisktegundir fara í fullnaðarvottun

14 desember 2017

Langa, keila og íslensk sumargotssíld komin í feril fullnaðarvottunar

Í framhaldi forvottunar veiða á löngu, keilu og íslenskri sumargotssíld ráðlagði vottunaraðilinn Global Trust Certification (GTC) að þessar veiðar færu í feril fullnaðarvottunar (full assessment). Vottunin mun taka til veiða með öllum veiðarfærum innan íslensku efnahagslögsögunnar (EEZ).

Gerð er krafa um aflareglu eða sambærilega aðferðafræði við stjórnun veiða samkvæmt fiskveiðistjórnunarstaðli Ábyrgra fiskveiða (ÁF). Formleg nýtingarstefna í formi aflareglu hefur verið sett af hálfu íslenskra stjórnvalda um veiðar þessara þriggja tegunda. ÁF og GTC hafa gengið frá samningi um vottunarvinnuna. Vonast er til að niðurstaða vegna umsóknar um vottunina fáist fyrir lok árs 2018.