Þorskur og gullkarfi í mjög góðu ástandi

Þorskur og gullkarfi í mjög góðu ástandi

3 janúar 2018

Stofnvísitölur þorsks og gullkarfa eru hærri en þær hafa verið síðan mælingar hófust árið 1996, eins og fram kom í tilkynningu frá Hafrannsóknarstofnun í desember síðastliðnum. Þetta voru meginniðurstöður haustrallsins, sem fór fram 4.-9. október 2017.

Samkvæmt Guðmundi Þórðarsyni, sviðsstjóra botnsjávarlífríkissviðs Hafrannsóknarstofnunar, er þróun stofnvísitölu þorsks mjög jákvæð, en hún hefur hækkað nær samfellt frá 2007, en það ár skrifuðu hlutaðeigendur í íslenskum sjávarútvegi (ríkisstjórnin, opinberar stofnanir og einkafyrirtæki) undir yfirlýsingu um ábyrgar fiskveiðar á Íslandsmiðum.

Aðaltilgangur haustrallsins er að meta stofnstærðir botnfiska í íslenskri fiskveiðilögsögu með sérstakri áherslu á djúpkarfa og grálúðu, og bera þær saman við önnur gögn. Rallið var framkvæmt af starfsfólki Hafrannsóknarstofnunar á tveimur rannsóknarskipum. Botntroll var notað til að rannsaka fisk allt niður á 1500 metra dýpi á 375 stöðum víðsvegar í kringum Ísland.

Haustrallið er mikilvægur þáttur í árlegu mati Hafrannsóknarstofnunar á stofnstærð botnfiska. Annað rall fer fram í mars á hverju ári, auk þess sem stofnunin notar tölur frá fiskiskipum til að meta ástand fiskistofna. Upplýsingarnar eru síðan notaðar til þess að veita stjórnvöldum fiskveiðiráðgjöf, næst í júní 2018, svo hægt sé að gefa út kvóta.

Niðurstöður haustrallsins gáfu einnig til kynna að stofnvísitala ýsu sé nálægt meðallagi og að vísitölur ýmissa annarra stofna sé yfir meðallagi – jafnvel hærri en þær hafa verið frá upphafi mælinga 1996 – s.s. ufsa, langlúru, skarkola, þykkvalúru, keilu og löngu.

Stofnvísitala djúpkarfa hefur hækkað eftir sögulegt lágmark, en nýliðun er áfram léleg. Stofnvísitala grálúðu fer einnig hækkandi eftir dýfuna sem hún tók árið 2006, en vísitölur hlýra, tindaskötu og skrápflúru eru enn lágar.