Þorskveiðar hljóta viðhaldsvottun

Þorskveiðar hljóta viðhaldsvottun

4 nóvember 2016

 Árlegri úttekt írsku vottunarstofunnar Global Trust til viðhaldsvottunar á  þorskveiðum (Gadus morhua) innan íslenskrar lögsögu er lokið. Vottunin er          samkvæmt nýútgefnum og endurskoðuðum staðli um ábyrgar fiskveiðar (Iceland  Responsible Fisheries Management Standard 2.0).

 Viðhaldsvottunin á þorskveiðunum er byggð á sömu forsendum og nýleg  viðhaldsvottun á gullkarfaveiðum þar sem úttektin tók einnig til nýrra krafna sem  er að finna í endurskoðuðum IRFM staðli. Tilgangurinn með árlegri viðhaldsvottun  er að vakta mögulegar breytingar sem gætu hafa átt sér stað við stjórn fiskveiða, á mati á stærð og ástandi fiskistofnanna og á öðrum umhverfisþáttum frá síðustu úttekt árið 2015.

IRFM staðallinn sem vottað er eftir byggir efnislega á samþykktum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) og er ISO faggildur. Óháð mat vottunarstofunnar var unnið eftir ISO17065 faggiltu kerfi Global Trust/SAI Global og veitir trúverðuga vottun þriðja aðila á ábyrgri fiskveiðistjórnun.

Með úttektinni hafa veiðar á þorski staðist árlega úttekt til viðhaldsvottunar og eru vottaðar skv. endurskoðuðum IRFM staðli 2.0. Vottunarskýrslan er aðgengileg hér.

Nánari upplýsingar um vottunina veita Finnur Garðarsson, finnur@irff.is, gsm 896 2400 og Hrefna Karlsdóttir, hrefna@irff.is, gsm 661 4555 hjá Ábyrgum fiskveiðum ses.