Þátttaka í Grüne Woche í Berlín 15.-24. janúar
Iceland Responsible Fisheries mun taka þátt í Grüne Woche sýningunni sem haldin er dagana 15.-24. janúar nk. Þar verður gullkarfinn og vottun hans kynnt sérstaklega. Um er að ræða samstarf við Fish Information Centre í Hamborg (FIZ) sem vinnur að því að upplýsa þýska neytendur um hollustu sjávarafurða og stuðla að aukinni fiskneyslu í Þýskalandi.
Grüne Woche á sér langa sögu en þetta er í 81. sinn sem sýningin er haldin. Framleiðendur hvaðanæva úr heiminum kynna afurðir sínar og voru sýnendur rúmlega 1.700 árið 2015, þar af 655 frá öðrum löndum en Þýskalandi. IRF og FIZ eru í höll 14.1.
Nokkrum fisktegundum frá Íslandi verður stillt upp í fiskborði og kynntar undir merkjum IRF. Vottun gullkarfans verður kynnt sérstaklega en eldað verður úr gullkarfa 15.-17. janúar og gestum gefið að smakka. Dreift verður upplýsingum og uppskriftabæklingum til gesta og plaköt með myndum frá Íslandi og af gullkarfanum prýða básinn. Þá dreifir FIZ tösku með skemmtilegri mynd af gullkarfanum og IRF auðkenni vottunar. Sjá nánari upplýsingar á enska hluta vefsins.
Björgvin Þór Björgvinsson verkefnisstjóri hjá Íslandsstofu sér um skipulagningu þátttökunnar og gefur nánari upplýsingar, bjorgvin@islandsstofa.is.