Bragðlaukarnir kitlaðir með íslenskum saltfiski í Mílanó
Ítalir eru ein þeirra þjóða sem hafa mikið dálæti á saltfiski og hafa í gegnum tíðina sóst eftir gæðum íslenska saltfisksins. Rík hefð er víða á Ítalíu fyrir því að snæða gæðasaltfisk á jólum, sérstaklega í Napólí og á svæðunum þar í kring. Það þótti því tilvalið í aðdraganda jólanna að minna á íslenska saltfiskinn í fjölmiðlum þar ytra.
Því var gripið til þess ráðs að bjóða fjölmiðlafólki til veglegrar saltfiskveislu og kynningar á íslenska hráefninu á veitingastaðnum Teatro 7 í Mílanó. Til verksins var fenginn Lorenzo Alessio, margverðlaunaður kokkur og meðlimur í ítalska kokkalandsliðinu (Nazionale Italiana Cuochi), en hann galdraði fram sjö saltfiskrétti fyrir viðstadda úr hágæða íslensku hráefni. Lorenzo þessi er Íslandsvinur en hann sótti Ísland heim árið 2014 og fór meðal annars á Patreksfjörð til þess að kynna sér veiðar og vinnsluaðferðir á íslenskum saltfiski. Sjá video frá ferð hans hingað til lands. Honum til stuðnings við kynningu á upprunalandinu var Olga Clausen Preatoni, kjörræðismaður Íslands í Mílanó, en hún flutti stutt erindi um leyndarmálið á bak við gæði íslensks saltfisks. Fjölmiðlafólkið var frá ólíkum miðlum, þar á meðal blaðamenn frá hinu virta dagblaði La Stampa og frá tímaritinu Islands, sem vinsælt er meðal ítalskra ferðalanga, svo einhverjir séu nefndir.
Aðgerðin var hluti af markaðsverkefninu „Saltaðar þorskafurðir í Suður Evrópu“ sem Íslandsstofa hefur stýrt undanfarin ár í samstarfi við framleiðendur og söluaðila á söltuðum þorski. Markmiðið með viðburðinum var að auka sýnileika og umfjöllun um saltaðar þorskafurðir frá Íslandi í ítölskum fjölmiðlum sem ætlað er að skili sér í meiri áhuga neytenda á hágæða söltuðum þorskafurðum, sem eiga uppruna sinn á Íslandi.