Sjávarútvegssýningin í Boston 16.-18. mars

Sjávarútvegssýningin í Boston 16.-18. mars

14 febrúar 2014

Sýningarnar Seafood Expo North America og Seafood Processing North America standa yfir í Boston dagana 16.- 18. mars 2014. Þetta eru stærstu sýningar sinnar tegundar í Norður Ameríku og hafa þær verið í töluverðri sókn undanfarin ár. Gestir árið 2013 voru um 19.000 frá um 100 löndum og er búist við enn fleiri gestum og sýnendum í ár.

Sameiginlegir hagsmunir íslenskra útflytjenda sjávarafurða verða kynntir á sýningunni undir merkjum Iceland Responsible Fisheries (bás nr. 673) auk þess sem einstök fyrirtæki kynna afurðir sínar, búnað og tæknilausnir og þjónustu við sjávarútveg á þjóðarbás sem Íslandsstofa setur upp. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, mun heimsækja sýninguna og m.a. kynna sér framleiðslu íslensku fyrirtækjanna og ræða við kaupendur íslenskra afurða. 

Uppruni og ábyrgar fiskveiðar verða kynntar og erlendum kaupendum sérstaklega boðið að bóka fundi á meðan á sýningunni stendur. Hægt er að bóka fundi með Finni Garðarssyni, verkefnisstjóra frá Ábyrgum fiskveiðum ses og Guðnýju Káradóttur frá Íslandsstofu til að ræða um vottun og markaðs- og kynningarmál Iceland Responsible Fisheries. Vinsamlegast sendið beiðni um fund á gudny@islandsstofa.is. Sjá hér pdf skjal til að senda á erlenda aðila til kynningar.

Viðskiptafulltrúi Íslands í New York tekur þátt í Seafood Expo og kynnir íslensk fyrirtæki sem taka þátt í markaðsverkefninu „Fresh or Frozen Fresh – Sourcing from Iceland“. Verkefnið hefur að markmiði að koma á viðskiptasamböndum og auka sölu á íslenskum sjávarafurðum í Bandaríkjunum og Kanada. 

Samhliða sýningunni er ráðstefnudagskrá með fjölda fræðsluerinda og námsstefna (seminars) sem sérfræðingar í sjávarútvegi taka þátt í. Dagskráin er skipulögð út frá eftirfarandi þemum:

  • Food Safety & Compliance
  • Seafood Sustainability
  • Food Service/Processing
  • Retail
  • Seafood Business Leadership

"Taste of Iceland" stendur yfir dagana 14.-18. mars í Boston. Hákon Már Örvarsson matreiðslumeistari og faglegur framkvæmdastjóri íslenska kokkalandsliðsins mun töfra fram dýrindis rétti úr íslensku hráefni, m.a. þorski, á veitingastaðnum Rialto. Sjá nánar á vef Iceland Naturally.

Nánari upplýsingar um sýninguna í Boston veita Guðný Káradóttir, forstöðumaður sjávarútvegs og matvæla, gudny@islandsstofa.is og Berglind Steindórsdóttir sýningastjóri, berglind@islandsstofa.is.