Sjávarfang og fleiri íslenskar afurðir kynntar á jólamarkaði í Strassborg

Sjávarfang og fleiri íslenskar afurðir kynntar á jólamarkaði í Strassborg

30 nóvember 2017

Mikill áhugi er á Íslandi í Strassborg í Frakklandi þessi dagana þar sem Ísland er heiðursgestur á einum elsta og stærsta jólamarkaði í heimi. Þetta er í 447. skipti sem markaðurinn er haldinn og er búist við að rúmlega tvær milljónir manna heimsæki markaðinn í desember. 

Markaðurinn opnaði 24. nóvember og verður opinn fram að jólum. Litla rauða Eldhúsið sem ferðast hefur víða, var flutt frá Barcelona á Place Gutenberg í miðjum gamla bænum í Strassborg. Ellefu íslensk fyrirtæki taka þátt í markaðnum og selja þar íslenskar vörur.

Athyglin á Ísland var nýtt til að kynna sjávarfang og fleiri matvæli frá Íslandi og var blaðamönnum boðið til málsverðar þar sem matreiðslumeistarinn Viktor Örn Andrésson eldaði dýrindis rétti úr íslensku hráefni. Einnig gátu hlustendur útvarpsstöðvarinnar Top Music Radio tekið þátt í leik í aðdraganda opnunar markaðarins og fengu fimm vinningshafar boð í hádegisverð í Eldhúsinu. Gestir geta tekið með sér uppskriftabækling með þorskréttum en Frakkland er stærsti markaðurinn fyrir þorsk frá Íslandi og var sérstök áhersla lögð á kynningu á þorskinum fyrir fjölmiðlafólkinu og almenningi. 

Íslensku fyrirtækin sem taka þátt í jólamarkaðinum eru Ice-Co, Lýsi, Reykjavík Distillery, Bæjarins bestu, Heilsukokkur, Hekla Ísland, Handprjónasambandið, IceWear, Iceland Treasures,  Skinboss og Urð. Þá hefur Samskip annast alla flutninga á vörum til Frakklands í tengslum við verkefnið.

Íslandsstofa og sendiráð Íslands í Frakklandi standa saman að verkefninu en auk þess kemur Mennta- og menningarmálaráðuneytið að skipulagningu menningarviðburða á svæðinu. Ýmis menningardagskrá verður í boði og voru m.a. haldnir tónleika í Dómkirkjunni fyrstu opnunarhelgina þar sem Svavar Knútur og Sigríður Ósk Kristjánsdóttir fluttu íslenska tónlist og var vel fagnað af þeim 700 gestum sem á hlýddu. Gestir á Place Gutenborg munu líka geta spreytt sig á erfiðasta karaoke lagi í heimi sem Steindi Jr. flytur, á hverjum laugardegi fram að jólum.

Mikill áhugi er á Íslandi meðal þeirra sem koma á markaðinn, íslenskum mat og menningu og hafa nú þegar margir fjölmiðlar lagt leið sína í íslenska jólaþorpið. Mikil umfjöllun hefur verið um Ísland í hinum ýmsu fjölmiðlum s.s. sjónvarpi, útvarpi og vefmiðlum.