Saltfiskveisla á Húsavík

Saltfiskveisla á Húsavík

29 nóvember 2017

Í nóvember komu til Íslands tveir Portúgalar frá veitingastaðnum Bacalhau Afins í Aveiro til að kynnast veiðum, saltfiskvinnslu og landinu almennt. Þetta voru þeir Roberto Almeida eigandi veitingastaðarins og Diogo Pires kokkur en veitingastaðurinn býður upp á íslenskan þorsk og sérhæfir sig í fjölbreyttum réttum, bæði hefðbundnum og óhefðbundnum saltfiskréttum. Heimsóknin tengist markaðsverkefni fyrir saltaðar þorskafurðir sem Íslandsstofa sinnir í samstarfi við söluaðila og framleiðendur á söltuðum þorski.

Markmiðið með heimsókninni var að efla kynningu á íslenska þorskinum í Portúgal,  treysta samstarfið við Bacalhau&Afins og gera þeim betur kleift að halda á lofti merkjum Íslands, en þeir kaupa íslenskan fisk á veitingastaðinn sinn. 

Þessa daga á Íslandi heimsóttu þeir m.a. Húsavík og fengu að upplifa alvöru íslenskt vetrarveður. Farið var í saltfiskvinnslu og um borð í línuskip en þannig gafst þeim tækifæri á að sjá með berum augum hvernig þessi gæðaafurð verður til. Um kvöldið var slegið upp veislu á veitingastaðnum Naustinu þar sem Portúgalarnir elduðu saltfisk og þorskrétti í samstarfi við íslensku kokkana Guðbjart Fannar Benediktsson frá Sölku restaurant og Hrólf Flosason hjá Fosshótel Húsavík. Þetta samstarf kokkanna mæltist vel fyrir og hafa íslensku kokkarnir mikinn áhuga á að gera saltaðan þorsk sýnilegri á matseðlum á Húsavík.

Þeim Roberto og Diogo gafst einnig kostur á að kynnast íslenskri náttúru í ferð sinni, auk annarri matvælaframleiðslu, s.s. tómataframleiðslu, rúgbrauðsgerð og framleiðslu á sjávarsalti. Heimsóknin tókst mjög vel í alla staði og voru þeir duglegir að miðla upplifun sinni af Íslandi á samfélagsmiðlum. Sjá nánar á Facebook síðu þeirra. Í lok ferðar voru þeir afar þakklátir fyrir að hafa fengið að upplifa Ísland og kynnast leyndarmálinu á bak við besta saltfisk í heimi, eins og þeir höfðu sjálfir á orði.