Quentin Clark hjá Waitrose lofar íslensku vottunarleiðina

Quentin Clark hjá Waitrose lofar íslensku vottunarleiðina

4 maí 2011

Quentin ClarkÞriðjudaginn 3. maí var haldinn fjölmennur fundur á vegum Iceland Responsible Fisheries í Brussel, en þar standa nú yfir stærstu fagsýningar heims í sjávarútvegi. Viðfangsefni fundarins var ábyrgar fiskveiðar Íslendinga og var aðalræðumaður Quentin Clark frá Waitrose í Bretlandi.

Fjallað er ítarlega um fundinn á fréttamiðlinum Seafoodnews.com. Þar kemur fram að íslenska vottunarleiðin sé að vinna sér sess og breskar verslanakeðjur fagni því framtaki sem unnið er undir merkjum Iceland Responsible Fisheries. Gæði á íslenska fiskinum og vottun á þorskveiðum hafi skipt sköpum í söluaukningu hjá Waitrose.

Óháð vottun mætir kröfum Waitrose

Waitrose hefur um árabil haft íslenskan fisk á boðstólum í verslunum sínum hefur skapað sér skýra stefnu í ábyrgri nýtingu sjávarauðlinda. Quentin Clark (Head of Sustainability and Ethical Sourcing) fjallaði á fundinum um mikilvægi sjálfbærra fiskveiða, stefnu Waitrose í þeim efnum og gildi vottunar á íslenskum fiskveiðum.  Quentin sagði gæðin skipta höfuðmáli í innkaupum á fiski – það væri það sem skipti neytendur mestu máli – og því hafi Waitrose ákveðið að kaupa ferska ýsu og þorsk frá Íslandi eingöngu. Vottun þriðja aðila og sú leið sem Íslendingar hafa farið í að staðfesta ábyrgar fiskveiðar, segir Quentin uppfylla strangar kröfur fyrirtækisins og þeir hafi ákveðið að fara í kynningarherferð á breska markaðinum í kjölfar vottunar á þorskveiðum Íslendinga. Þessi kynning skilaði umtalsverðri aukningu í sölu og sagði hann gæði íslenska fisksins grundvöllinn fyrir góðum árangri í sölu.

Í máli hans kom einnig fram að Íslendingar hafi gott orð á sér fyrir ábyrga fiskveiðistjórnun sem og gott eftirlit sem hefur mikið vægi í mati Waitrose.  Quentin Clark telji það á ábyrgð fagaðila eins og þeirra hjá Waitrose að velja fisk úr stofnum sem ekki er ógnað og uppfyllir ströngustu kröfur um ábyrga nýtingu auðlinda hafsins – með hagsmuni neytenda í fyrirrúmi.

Fleiri tegundir í vottunarferli

Eggert Benedikt Gudmundsson

Eggert Benedikt Guðmundsson forstjóri HB Granda og fomaður fagráðs sjávarútvegs Íslandsstofu veitti á fundinum yfirlit yfir stöðu vottunar og sagði frá framtíðaráherslum í verkefninu Iceland Responsible Fisheries. Vottunarverkefnið hafi hlotið góðar viðtökur meðal aðila í virðiskeðjunni og að á næstunni verði lögð áhersla að setja fleiri fiskistofna í vottunarferli undir merkjum Iceland Responsible Fisheries; ýsu, ufsa og gullkarfa.

Sameiginleg kynning á Íslandsbás

Fjöldi íslenskra fyrirtækja sýnir á European Seafood Exposition og Seafood Processing Europe í Brussel og skipuleggur Íslandsstofa þátttöku fjölmargra þeirra en þetta er í 19. sinn sem sameiginlegur Íslandsbás er á sýningunum. Sýningarnar eru stærstu fagsýningar í sjávarútvegi og ávallt vel sóttar.

Nánari upplýsingar veitir Guðný Káradóttir, markaðsstjóri Iceland Responsible Fisheries, gudny@islandsstofa.is gsm 693 3233.  Sjá einnig á www.islandsstofa.is.