Kynningarfundur í Boston
Iceland Responsible Fisheries hélt kynningarfund á sjávarútvegssýningunni í Boston 21. mars í samstarfi við Iceland Naturally undir yfirskriftinni „International approch – Local initiative“. Þar voru ábyrgar veiðar Íslendinga og vottun þorskstofnsins til umfjöllunar Fundurinn var vel sóttur og að sögn Guðnýjar Káradóttur markaðsstjóra verkefnisins hjá Íslandsstofu var sérstaklega mikill áhugi meðal fulltrúa annarra landa og ríkja í Bandaríkjunum á að kynna sér þessa vottunarleið.
Á fundinum kynnti Peter Marshall, framkvæmdastjóri Global Trust, vottunarferli þorskstofnins, en Global Trust vottaði veiðar á þorski í des. sl., og hefur birt ítarlega vottunarskýrslu á vef sínum. Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafrannsóknarstofnunar hélt erindi um ástand helstu fiskstofna, rannsóknir og veiðiráðgjöf á þorski. Sjá nánar um dagskrá fundarins hér.
Alaska hefur einnig fetað í fótspor Íslendinga og á sjávarútvegssýningunni í Boston var tilkynnt að laxveiðar við Alaska hafa hlotið vottun skv. sambærilegu kerfi og þorskveiðar Íslendinga. Á kynningarfundi sem Alaska hélt í Boston þakkaði Randy Rice starfsmaður Alaska Seafood Marketing Institute Íslendingum frumkvæði þeirra í að koma á vottunarverkefni sem grundvallað er á FAO viðmiðunum og töldu Íslendinga þannig hafa rutt leiðina í þessum efnum fyrir aðra.
Vottunarferlið er unnið samkvæmt ströngustu alþjóðlega viðurkenndum kröfum, byggt er á leiðbeiningum FAO um umhverfismerkingar og vottun vegna veiða úr villtum stofnum.