Kynning í kokkaskóla á Ítalíu

Kynning í kokkaskóla á Ítalíu

29 október 2019

Þann 16. október sl. stóð Íslandsstofa fyrir kynningu í Istituto Alberghiero Collegio Ballerini kokkaskólanum í Seregno sem er í úthverfi Mílanó. Kynningin er liður í markaðsverkefninu "Leyndarmál íslenska þorsksins", en í verkefninu hefur einn áhersluþátturinn verið að fræða nemendur í kokkaskólum á Ítalíu, Spáni og  Portúgal um íslenskan þorsk (Baccalà Islandese).

Rúmlega 50 nemendur kokkaskólans voru valdir sérstaklega til að taka þátt í viðburðinum fyrir hönd skólans. Eftir kynningu um Ísland og mismunandi saltfiskafurðir bauð ítalski landsliðskokkurinn Lorenzo Alessio upp á sýnikennslu þar sem hann eldaði þrjá mismunandi saltfiskrétti og tóku nemendur skólans virkan þátt í eldamennskunni.

Þessi kynning í kokkaskólanum í Seregno/Mílanó er 18 heimsóknin af þessu tagi en áður hafa verið haldnar kynningar í kokkaskólum á eftirfarandi stöðum: Barcelona, Madrid, Bilbao, San Sebastian, Vigo, Valencia, Lissabon, Aveiro, Porto, Róm, Tórínó og Ottaviano sem er rétt fyrir utan Napólí. Frá árinu 2015 hafa rúmlega 650 nemendur í löndunum þremur fengið kynningu og tekið þátt í sýnikennslu með íslenska saltfiskinum eða um 130 á hverju ári.