Kynning í kokkaskóla á Ítalíu

Kynning í kokkaskóla á Ítalíu

21 desember 2016


Þann 6. desember sl. stóð Íslandsstofa fyrir kynningu í L. De Medici skólanum í bænum Ottaviano við rætur Vesuvius eldfjallsins á Suður Ítalíu. Kynningin er liður í markaðsverkefninu "Leyndarmál íslenska þorsksins", en sérstök áhersla hefur verið lögð á að fræða nemendur í matreiðslu og framreiðslu um gæðahráefni og upprunalandið Ísland í kokkaskólum á Ítalíu, Spáni og í Portúgal.

Mikill áhugi var hjá nemendum skólans og mættu um 100 talsins til að hlýða á fyrirlestur um veiðar, vinnslu og mismunandi afurðir unnar úr söltuðum þorski. Andrea Eminente, frá fyrirtækinu Unifrigo Gadus sem selur íslenskan fisk, hélt kynningu á veiðum, vinnslu og gæðamálum, og í kjölfarið ávarpaði Björgvin Þór Björgvinsson frá Íslandsstofu nemendur og lýsti yfir mikilli ánægju með samstarfið við skólann. Hann nefndi að það væri sameiginlegt verkefni sjávarútvegsins á Íslandi og kaupenda úti á mörkuðunum að viðhalda neyslu á saltfiski og að það yrði m.a. gert með aukinni þekkingu ungra verðandi matreiðslumanna á hráefninu og fjölbreyttum eldunaraðferðum.

Ítalski landsliðskokkurinn Lorenzo Alessio sýndi nemendum hvernig hann meðhöndlar hráefnið og eldaði fjölbreytta rétti. Mjög mikill áhugi var hjá nemendum og kennurum skólans á þessum kynningardegi um íslenska þorskinn og var þegar farið að ræða frekara samstarf og mögulega ferð nemenda skólans til Íslands. Ottaviano er í héraðinu Campania en þar er mikil hefð fyrir neyslu á saltfiski og er því eitt sterkasta markaðssvæðið fyrir íslenska þorskinn á Ítalíu.

Þessi kynning í skólanum í Ottaviano er sú sjöunda sem haldin er af þessu tagi. Stefnt er að auknu samstarfi við skólann í Ottaviano líkt og gert hefur verið t.d. í Barcelona. Þar var haldin matreiðslukeppni meðal nemenda sem elduðu úr íslenska fiskinum og fékk vinningshafinn ferð til Íslands.

Hér að neðan má sjá video og ljósmyndir frá kynningunni. Tengill á vefsíðu verkefnisins á ítölsku.