Íslenskur þorskur á EM í París

Íslenskur þorskur á EM í París

20 júní 2016

Mikið er um að vera í Frakklandi þessa dagana eins og alþjóð veit. Það er þó ekki bara fótbolti. Í París er þátttökuþjóðunum boðið að kynna land sitt á Evróputorginu í París meðan á mótinu stendur eða til 10. júlí nk. Þar er litla rauða ELDHÚSIÐ farið að þjóna sínum tilgangi í að kynna Ísland, íslenska menningu og matvæli fyrir almenningi og fjölmiðlafólki. Húsið hefur meðal annars verið notað til að kynna saltaðar þorskafurðir í Suður Evrópu, á Ítalíu, Spáni og í Portúgal.

Forsætisráðherra, menntamálaráðherra og Berglind Ásgeirsdóttir sendiherra í París heimsóttu svæðið mánudaginn 20. júní þegar fjölbreytt dagskrá var í gangi til að kynna íslenska tónlist og íslenskan fisk.

Matarmenning kynnt fjölmiðlum

Þann 18. júní tók meistarakokkurinn Viktor Örn Andrésson yfir Eldhúsið og töfraði fram þriggja rétta máltíð og lystauka úr íslensku hráefni - þorsk, humri, lambakjöti, skyri o.fl. - fyrir nokkra fulltrúa fjölmiðla í Frakklandi. Viktor  er fulltrúi Íslands í Bocus d'Or matreiðslukeppninni sem fer fram í Lyon í janúar 2016, en hann landaði fimmta sæti í Evrópukeppninni sem haldin var í Budapest í maí sl. Viðtökur fjölmiðlafólksins voru afskaplega jákvæðar og eru miðlarnir þegar byrjaðir að miðla upplifun sinni, m.a. Le Fashion Post á Twitter síðu sinni, Biens Dans Ma Cuisine, og Group Expression á Facebook.

Ferskur gæða þorskur matreiddur

Almenningi gefst kostur á að bragða á íslenskum þorski í Eldhúsinu bæði 20. og 21. júní. Tvenns konar réttir eru í boði og geta gestir tekið með sér póstkort með skilaboðum um ábyrgar fiskveiðar Íslendinga, íslenska sjávarþorpið og gómsætan íslenskan fisk. Frakkland er einn af mikilvægustu mörkuðunum fyrir sjávarafurðir frá Íslandi og  verðmætasti markaðurinn fyrir ferskan þorsk.