Fundur með þýskum kaupendum haldinn í Berlín 2. júní sl.

Fundur með þýskum kaupendum haldinn í Berlín 2. júní sl.

6 júní 2016

Fundur var haldinn með kaupendum sjávarafurða í Þýskalandi og hagsmunaðilum þann 2. júní sl. í sendiherrabústaðnum í Berlín. Það voru Íslandsstofa, Ábyrgar fiskveiðar ses. og sendiráðið í Berlín sem stóðu að fundinum. Markmiðið var að styrkja tengsl við helstu kaupendur á íslenskum sjávarafurðum og fræða um stjórn fiskveiða á Íslandi,  rannsóknarstarf og stöðu fiskistofna og vottunarmál undir merkjum Iceland Responsible Fisheries.

Gunnar Snorri Gunnarsson bauð gesti velkomna í upphafi fundar, en auk kaupenda og dreifingaraðila voru á fundinum embættismenn sem starfa að sjávarútvegsmálum í þýska stjórnkerfinu. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, flutti ávarp á fundinum um stjórn fiskveiða. Í máli hans kom fram að ákvarðanir um langtímanýtingarstefnu og aflamark byggja á þeirri grundvallarstefnu sem mörkuð var með sameiginlegri yfirlýsingu allra hagsmunaaðila í sjávarútvegi um ábyrgar fiskveiðar árið 2007. Hann sagði greinina alla og yfirvöld sanda saman um þau sjónarmið að láta vísindaleg sjónarmið ráða ráða för í ákvörðunum og framkvæmd veiðanna. 

Þorsteinn Sigurðsson sviðsstjóri nytjastofnasviðs Hafrannsóknastofnunar greindi frá gagnaöflum og aðferðum við vísindarannsóknir stofnunarinnar og útskýrði hvernig staðið er að því að meta stærð fiskistofna. Hann tók sérstaklega til umfjöllunar þær tegundir sem eru mikilvægastar fyrir þýska
markaðinn: gullkarfa, ufsa, þorsk, steinbít og síld.

Hrefna Karlsdóttir verkefnisstjóri hjá Ábyrgum fiskveiðum útskýrði kerfi vottunar, hvernig staðallinn er unninn og vottun er framkvæmd. Hún lagði einnig áherslu á að vottun fæli ekki í sér stjórn fiskveiða heldur væri hún tæki til að sannreyna að fiskveiðum sé stjórnað í samræmi við alþjóðareglur og viðmið FAO, Matvælastofnunar sameinuðu þjóðanna. Hún sagði miklu skipta að vottun væri unnin á faglegan hátt og væri trúverðug, að þær veiðar sem vottaðar væru sem sjálfbærar væru það í raun.

Haukur  Þór Hauksson aðstoðarframkvæmdastjóri SFS dró í lokin saman  helstu atriði kynninganna. Fundarmenn voru áhugasamir og spurðu fjölda spurninga, m.a. um reynsluna af samstarfi við alþjóðastofnanir, um eftirlit við stjórn fiskveiða og vottun. Þá gafst tækifæri til að ræða við ráðherra og aðra framsögumenn að kynningum loknum. Sýnt var video frá þátttöku Iceland Responsible Fisheries á sýningunni Grüne Woche sem haldin var í Berlín í janúar 2016.

Boðið var upp á ljúffengar veitingar úr sjávarafurðum og íslensku lambakjöti en það var Friðrik Sigurðsson matreiðslumeistari sem útbjó veitingarnar og flutt var tónlist af listamönnunum Eva Þyrí Hilmarsdóttur (píanó), Ágústi Ólafssyni (bariton) og Sesselju Kristjánsdóttur (mezzosopran).