Matur er mikil virði - erindi af ráðstefnunni 19. maí sl.
Þann 19. maí sl. efndi samstarfsvettvangurinn Matvælalandið Íslands til ráðstefnu í Hörpu undir yfirskriftinni Matur er mikils virði – nýir straumar og markaðssetning matvæla. Ráðstefnan var vel sótt en aðalumræðuefni hennar var matvæli og markaðssetning í framtíðinni með tilliti til aukinnar verðmætasköpunar. Fjölmörg áhugaverð erindi voru flutt á ráðstefnunni og tvö þeirra um sjávarafurðir sérstaklega.
Erindi Guðmundar H. Gunnarssonar, nýsköpunarstjóra hjá Skinney Þinganesi og formanns ÍSF (Íslenskra saltfiskframleiðenda), bar yfirskriftina Leyndamál íslenska þorsksins. Hann sagði frá markaðsverkefni saltaðra þorskafurða í Suður-Evrópu sem er samvinnuverkefni ÍSF og fyrirtækja í greininni og Íslandsstofu. Þá fjallaði hann um samspil hefða og nýsköpunar og var sögusviðið Höfn í Hornafirði. Í markaðsverkefninu í Suður-Evrópu er lögð áhersla á að segja frá þeim hefðum, þekkingu og reynslu sem býr í íslenskum sjávarþorpum og skapa þannig aukin verðmæti fyrir vöruna. Sjá myndbandsupptöku af erindi Guðmundar hér.
Valdís Fjölnisdóttir og Pálmi Jónsson sögðu frá fyrirtæki sínu, Blámar, vöruþróun og uppbyggingu vörumerkis fyrirtækisins en slagorð þess er hafsjór af hollustu. Þau sjá tækifæri í sölu án milliliða, beint á erlendar verslanakeðjur, pakkað heima undir íslensku merki.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, flutti ávarp í upphafi ráðstefnunnar. Aðalfyrirlesarinn, Birthe Linddal frá Danmörku, hélt erindi um strauma og stefnur í matargeiranum og tækifærin sem í þeim felast. Hún minnti fundargesti á að þeir gætu haft áhrif á framtíðina þar sem hún væri ekki fullmótað fyrirbæri. Með það í huga ættu matvælaframleiðendur að rýna í nútíð og framtíð, meta með opnum huga mögulegar breytingar á hegðun fólks og neyslu þeirra í framtíðinni og þau tækifæri sem í því felast.
Allar myndbandsupptökur af ráðstefnunni eru aðgengilegar hér á vefnum.