Íslenskar saltfiskafurðir kynntar á Seafood Barcelona
Íslandsstofa skipuleggur þátttöku íslenskra fyrirtækja sem framleiða og selja saltfiskafurðir á Seafood Barcelona sýningunni sem haldin er dagana 22.-24. október. Það eru 26 fyrirtæki sem hafa sameinast í að kynna íslenskar saltfiskafurðir undir kjörorðinu "Taste and share the secret of Icelandic Bacalao". Lögð er áhersla á gæði, uppruna og hreinleika í kynningunni sem og fagmennsku og færni í að viðhalda ferskleika og bragðgæðum afurðanna. Íslenska þorpið er notað sem "rödd" í kynningunni og mun ELDHÚSið sem notað var í Inspired by Iceland verkefninu, verða táknmynd íslenska þorpsins.
Kaupendum og öðrum hagsmunaaðilum er boðið á bás nr. I4026 á sýningunni þar sem hægt er að funda og fá að smakka á afurðum sem seldar eru í Suður Evrópu.
Þá mun Ísland taka þátt í Master Class þar sem þorskur úr Norður Atlantshafi verður kynntur og matreiðslumaður eldar og gefur gestum að smakka.