Ábyrgar ýsu- og ufsaveiðar staðfestar með vottun
Veiðar Íslendinga á ýsu og ufsa í íslenskri fiskveiðilögsögu hafa hlotið vottun sem byggir á ströngustu kröfum sem settar eru á alþjóðavettvangi. Vottunin, sem er unnin undir merkjum Iceland Responsible Fisheries, staðfestir ábyrga fiskveiðistjórnun og góða umgengni um auðlindir sjávar.
Sífellt auknar kröfur eru gerðar til ábyrgra fiskveiða á alþjóðavettvangi, bæði hjá alþjóðastofnunum og meðal kaupenda sjávarafurða. Vottunin er liður í að treysta aðgengi fyrir ýsu og ufsa að erlendum mörkuðum.
Fiskifélag Íslands og síðar Ábyrgar fiskveiðar ses., sem helstu samtök hagsmunaaðila í íslenskum sjávarútvegi standa að, hafði forgöngu um að byggja upp vottunarverkefni á Íslandi undir merkjum Iceland Responsible Fisheries. Það byggir á leiðbeinandi reglum matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) um vottun fiskveiða og siðareglum FAO um ábyrgð í fiskimálum. Í íslenskum lögum er tekið fullt tillit til alþjóðasamninga við lagasetningu um framkvæmd fiskveiðistjórnunar og góðrar umgengni við auðlindir sjávar.
Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hefur staðfest að aflareglur eru í samræmi við varúðarleið við stjórn fiskveiða. Að sögn Gunnars Tómassonar, formanns Ábyrgra fiskveiða ses., er vottunin á þessum tveimur fiskistofnum, ýsu og ufsa, mikilvæg fyrir íslenskan sjávarútveg sem fær staðfest að greinin mætir kröfum markaðarins um sjálfbæra nýtingu endurnýjanlegra auðlinda. „Ég er mjög ánægður með að íslensk stjórnvöld hafi sett aflareglu fyrir ýsu- og ufsaveiðar í íslenskri fiskveiðilögsögu en það var forsenda vottunarinnar. Í framhaldinu hefur fengist vottun óháðs vottunaraðila, samkvæmt ströngustu alþjóðlegum kröfum sem staðfestir vandaða stjórnun veiða Íslendinga á ýsu og ufsa.“
Global Trust Certification á Írlandi, sem heyrir undir alþjóðlega vottunarfyrirtækið SAI Global og er með starfsemi í fjölmörgum löndum, vann úttektina og gaf út vottunarskírteini fyrir veiðar á ýsu og ufsa, en áður hafa þorskveiðarnar verið vottaðar undir merkjum Iceland Responsible Fisheries.
Íslenskur sjávarútvegur skilaði þjóðarbúinu 269 milljörðum í gjaldeyristekjur árið 2012, þar af skilaði ýsan 16,4 milljörðum króna (21 þúsund tonn af afurðum) og ufsinn 12,5 milljörðum króna (23,2 þúsund tonn af afurðum). Aflaheimildir fyrir fiskveiðiárið 2013-2014 eru 38 þúsund tonn af ýsu og 57 þúsund tonn af ufsa.
Nánari upplýsingar um vottunina og verkefnið veita:
Finnur Garðarsson, verkefnisstjóri hjá Ábyrgum fiskveiðum ses., finnur@fiskifelag.is gsm 896 2400
Guðný Káradóttir, markaðsstjóri IRF, forstöðumaður hjá Íslandsstofu, gudny@islandsstofa.is gsm 693 3233.