Hafró kynnir ráðgjöf sína - 6% aukning á aflamarki þorsks

Hafró kynnir ráðgjöf sína - 6% aukning á aflamarki þorsks

13 júní 2017

Hafrannsóknastofnun kynnti í dag ástand nytjastofna á Íslandsmiðum og ráðgjöf um fiskveiðar á komandi fiskveiðiári sem hefst þann 1. september.  Almennt er ástand nytjastofna gott og ráðleggur stofnunin því aukningu í mörgum af mikilvægustu nytjastofnum við Íslandsstrendur.

Þorskstofninn er í góðu ástandi og ráðleggur stofnunin 6% aukning á aflamarki þorsks byggt á aflareglu stjórnvalda, úr 244.000 tonnum í 257.572 tonn fyrir fiskveiðiárið 2017/2018. Samkvæmt stofnmatinu í ár stækkaði viðmiðunarstofninn lítillega milli áranna 2016 og 2017. Búist er við að þegar þorskárgangarnir frá 2014 og 2015 komi inn í viðmiðunarstofninn 2018 og 2019 stækki hann nokkuð frá því sem nú er. 

Samkvæmt aflareglu stjórnvalda er ráðlagt aflamark ýsu 41.390 tonn fyrir fiskveiðiárið 2017/2018, sem er 20% aukning frá fyrra ári. Þessi aukning byggir á bættri nýliðun ýsu árin 2016 og 2017 miðað við fimm ár þar á undan.

Hrygningarstofn ufsa er nú metinn nálægt sögulegu hámarki. Aflaregla ufsa gerir ráð fyrir 10% aukningu í aflamarki fyrir næsta fiskveiðiár, úr 55.000 tonnum í 60.237 tonn. Aukninguna má m.a. rekja til hins stóra 2012 árgangs. 

Þá kemur fram á vef Hafrannsóknastofnunar að árgangar gullkarfa hafa verið með lakasta móti frá 2006 og af þeim sökum hefur hrygningarstofn minnkað lítillega. Samkvæmt aflareglu verður heildaraflamark gullkarfa 2017/2018 því 50.800 tonn sem er 4% lækkun frá fyrra fiskveiðiári. Samkvæmt samkomulagi milli Íslands og Grænlands mun 90% eða 45.720 tonn koma í hlut Íslendinga. Ráðlagt er að draga úr veiðum á sumargotssíld um 38%, úr 63.000 tonn í 38.712 tonn.

Sjá nánar um ráðgjöfina hér á vef Hafrannsóknastofnunar.