Leyfilegur heildarafli fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 gefinn út

26 júní 2017

Ákvörðun um heildarafla í íslenskri fiskveiðilögsögu fyrir næsta fiskveiðiár, 2017/2018, hefur verið tekin af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Byggt er á ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar í úthlutun aflaheimilda í öllum tegundum. Í frétt ráðherra kemur fram að ákvörðun um aflaheimildir sé tekin að höfðu samráði við hagsmunaaðila í sjávarútvegi, ríkisstjórnar og fleiri aðila í stjórnkerfinu. 

Þorskkvótinn er aukinn úr 244.000 tonnum í 257.572 tonn. Þá er einnig aukning í ýsukvóta, úr 34.600 í 41.390 tonn og ufsa úr 55.000 í 60.237 tonn. Þess ber að geta að aflamark fyrir mikilvæga uppsjávarstofna verður ákveðið á haustmánuðum.

Sjálfbær nýting og varúðarstefna eru grunnforsendur þeirrar ráðgjafar. Nýtingarstefna sem byggir á aflareglu er sett fyrir sífellt fleiri tegundir . Við mótun nýtingarstefnu er haft samráð við hagsmunaaðila, auk þess sem leitað er eftir áliti og staðfestingu frá Alþjóða hafrannsóknaráðinu. Að mati ráðuneytisins er því hægt að fullyrða að fiskveiðar við Ísland standist alþjóðleg sjónarmið um sjálfbærni og varúð.

Sjá nánari upplýsingar um leyfilegan heildarafla fiskveiðiárið 2017/2018 á vef ráðuneytisins.