Gullkarfinn heillar þýska neytendur

Gullkarfinn heillar þýska neytendur

24 janúar 2019

Dagana 18-20. janúar stóð Iceland Responsible Fisheries (IRF) fyrir kynningu á íslenskum gullkarfa á „Grüne Woche“ sem er stór matvæla- og landbúnaðarsýning sem fer fram árlega í Berlín.

IRF var í samstarfi við Fisch-Informationszentrum (FIZ) í Hamborg á sýningunni og deildi bás með stofnuninni, sem hefur það markmið að upplýsa þýska neytendur um hollustu sjávarafurða og stuðla að aukinni fiskneyslu í Þýskalandi. Þetta er í fjórða skipti sem IRF tekur þátt í Grüne Woche í samstarfi við FIZ.

Gullkarfa frá Íslandi var stillt upp í fiskborði og fiskurinn kynntur undir merkjum IRF og gátu gestir fengið að smakka pönnusteiktan gullkarfa. Á meðal þeirra sem gæddu sér á íslenska gullkarfanum var Julia Klöckner, landbúnaðaráðherra Þýskalands, sem heimsótti básinn fyrsta dag sýningarinnar ásamt miklum fjölda fjölmiðlafólks. Sýningin stendur yfir í alls 10 daga eða frá 18.- 27. janúar.

Fulltrúi IRF/Íslandsstofu á sýningunni dreifði kynningarefni til áhugasamra, m.a. uppskriftabæklingum og almennum upplýsingum um áfangastaðinn Ísland. Gátu gestir unnið IRF svuntur og íslenskt salt ef þeir svöruðu spurningum um Ísland, mikilvægustu fisktegundir Íslendinga og íslenska handboltalandsliðið sem keppti þessa daga á HM í Þýskalandi. Þá gafst þeim sem heimsótti básinn einnig tækifæri á því að taka þátt í getraunleik og vinna „Íslandskvöldverð“ á Michelin veitingastaðnum FACIL í Berlín. Fjölmargir tóku þátt í leiknum en sigurvegarar voru þær Kerstin Von Dreden frá Hamborg og Sandra Böhm frá Berlín.

Framleiðendur frá öllum heimshornum kynna afurðir sínar á Grüne Woche en sýnendur eru um 1.500 frá 65 löndum. Áætlað er að um 380.000 manns sæki sýninguna að jafnaði, mest almennir gestir en þar á meðal eru einnig um 85 þúsund fagaðilar.