Færasti kokkanemi Spánar valinn á viðburði Bacalao de Islandia

Færasti kokkanemi Spánar valinn á viðburði Bacalao de Islandia

21 nóvember 2019

Á Spáni er íslenskur saltfiskur þekktur fyrir gæði og á sér sérstakan stað í hjörtum margra. Það er mikilvægt að kynna þetta hráefni fyrir yngri kynslóðum matreiðslumanna. Því hefur markaðsverkefnið Bacalao de Islandia lagt ríka áherslu á að heimsækja kokkaskóla og kynna íslenskan saltaðan þorsk undanfarin ár, í samstarfi við þekkta matreiðslumenn. Bacalao de Islandia hefur nú náð til yfir 1000 matreiðslunema á þeim fimm árum sem verkefnið hefur staðið yfir.

Þann 14. nóvember sl. var stigið nýtt skref í þessu verkefni, en þá fór fram glæsilegur viðburður í CETT matreiðsluskólanum í Barcelona, á vegum Bacalao de Islandia. Um er að ræða keppni þar sem færasti saltfiskkokkanemi Spánar er valinn. Hópur fulltrúa frá íslenskum framleiðendum og söluaðilum gerði sér ferð til Barcelona til þess að fylgjast með keppninni og kynna sér starfið, m.a. með heimsóknum á matarmarkaði og í saltfiskbúðir. Á meðan heimsóttu nemarnir höfuðstöðvar Iceland Seafood í Barcelona.

Í keppninni öttu kappi átta skólar víðsvegar frá Spáni, meðal annars frá Barcelona, Sevilla, Bilbao, Valencia og Toledo. Hver skóli valdi einn nemenda sem sinn fulltrúa og einkenndi sköpunargleði og metnaður framlag allra nemanna. Dómnefnd, sem var meðal annars skipuð Michelin kokkinum Carles Gaig, matarblaðamanni El Periódico og Agnari Brynjólfssyni, fulltrúa þátttökufyrirtækja, þurfti að taka á honum stóra sínum til að komast að niðurstöðu.

Odalrich Chivia frá Barcelona varð hlutskarpastur, en hann mun í byrjun næsta árs ásamt kennara sínum koma til Íslands og kynnast upprunalandinu enn betur, og sýna íslenskum kokkanemum hvernig Spánverjar elda saltfisk. Stefnt er að því að þessi keppni verði árlegur viðburður, enda frábær leið til þess að festa saltfiskinn okkar í sessi hjá þessum mikilvæga markhópi.