Vel heppnuð keppni ungra kokkanema í Róm

Vel heppnuð keppni ungra kokkanema í Róm

10 desember 2019

Markaðsverkefnið „Saltaðar þorskafurðir í Suður Evrópu“ hefur lagt mikla áherslu á að kynna íslenskan þorsk fyrir ungum matreiðslumönnum og hafa nú þegar farið fram um 20 kynningar í kokkaskólum á Spáni, Portúgal og Ítalíu. Þann 14. nóvember var haldin keppni á milli nemenda í skólum á Spáni, sjá frétt hérna, en þann 25. nóvember var röðin komin að ungum kokkanemum á Ítalíu.

Keppnin fór fram í  Istituto Gioberti kokkaskólanum í Róm og einkenndi mikil fagmennska viðburðinn. Það voru nemendur frá fjórum mismunandi skólum víðsvegar frá Ítalíu sem tóku þátt: Ottaviano/Napólí, Róm, Seregno/Mílanó og Tórínó. Allt eru þetta skólar sem hafa verið heimsóttir undanfarin ár og þeir fengið að læra að elda úr þessu frábæra hráefni undir haldleiðslu virtra matreiðslumanna. Allir skólarnir fengu íslenskan saltfisk sendan og síðan var haldin undankeppni í hverjum skóla til að velja þátttakanda fyrir lokakeppnina í Róm.

Í dómnefndinni var valinn maður í hverju rúmi, m.a. ítalski landsliðskokkurinn Lorenzo Alessio, einnig voru þar eigandi og yfirkokkur á saltfiskveitingastaðnum Baccalaria þeir Toti Lange og Vincenzo Russo sem og matarblaðamaðurinn Giovanni Angelucci, allir hafa þeir tekið þátt í þessum kynningum undanfarin ár.

Biagio Taddei frá Istituto Giolitti skólanum í Tórínó varð hlutskarpastur með “Panissa di Baccalà“ uppskriftina sína en hann mun í byrjun næsta árs ásamt kennara sínum koma til Íslands og kynnast landinu sem framleiðir þessa einstöku vöru sem saltfiskurinn er.