Besta eldamennskan á söltuðum íslenskum þorski í CETT skólanum í Barcelona

Besta eldamennskan á söltuðum íslenskum þorski í CETT skólanum í Barcelona

17 nóvember 2016

Þann 15. nóvember sl. voru úrslit kunngerð í matreiðslukeppni fyrir nemendur í matreiðsluskólanum CETT í Barcelona. Efnt var til keppninnar undir merkjum markaðverkefnisins Bacalao de Islandia (smakkaðu og deildu leyndarmáli íslenska þorsksins) sem Íslandsstofa heldur utan um. Þrír nemendur kepptu í úrslitum en alls tóku 25 nemendur þátt. Vinningshafinn, Carlos Hidalgo Herrera, fékk ferð til Íslands í verðlaun og kemur í febrúar á næsta ári ásamt kennara úr skólanum til að kynnast saltfisklandinu Íslandi enn betur og kynna katalónska eldamennsku hér á landi.

Markmiðið með keppninni og samstarfinu við CETT, er að auka þekkingu nemendanna á íslensku gæðahráefni og hvetja þau til að nota íslenska fiskinn í eldamennnsku. Skilyrði í keppninni var að nota saltaðan þorsk (bacalao) frá Íslandi, en matreiðsluaðferðin var frjáls. Fjölbreytni var ráðandi í eldamennskunni og var vinningsrétturinn t.d. reyktur og með meðlæti sem var árstíðabundið. Dómnefndin, sem var skipuð þremur Íslendingum, Guðnýju Káradótturr og Kristni Björnssyni frá Íslandsstofu og Frey Sigurðssyni frá Icelandic Iberica, sem er þátttakandi í markaðsverkefninu, var samróma um niðurstöðuna. 

CETT matreiðsluskólinn er hluti af Universidad de Barcelona og er einn af þeim stærstu og virtustu í Katalóníu. Nemendur eru um 2000 talsins, þar af um 600 í matreiðslu og hótelstjórnun deildinni. Gott samstarf hefur skapast við skólann, en fyrr á árinu var haldin kynning í skólanum á upprunalandinu Íslandi, veiðum, vinnslu og hvernig Íslendingar vinna að því að viðhalda gæðum í framleiðslu á söltuðum þorskafurðum. Þá kenndi Paco Pérez, frá Miramar, sem er Michelin veitingastaður í Girona, nemendum að elda nokkra rétti úr íslenska hráefninu. Í framhaldinu var svo boðið upp á íslenskan þorsk á veitingastað skólans í tvær vikur, þar sem nemendur fengu tækifæri til þess að kynnast hráefninu betur.

Fyrir tilstilli Íslandsstofu hafa tveir af nemendum skólans komið til Íslands, annar í þjálfun á VOX og hinn í sumarvinnu á Pakkhúsinu í Stykkishólmi. Samkvæmt Isabel Lugo kennara við skólann, hefur með þessu tekist að koma sterkri og jákvæðri kynningu á íslenskum uppruna til nemenda, en saltaður þorskur (bacalao) er gríðarlega mikilvægt hráefni í katalónskri matargerð og því ómissandi í þjálfun upprennandi matreiðslumanna. 

Facebook síða skólans.