Mikill áhugi á markaðsmálum þorsks í Barcelona

Mikill áhugi á markaðsmálum þorsks í Barcelona

17 nóvember 2016

Þann 14. nóvember var boðað til kynningarfundar á vegum markaðsverkefnisins Saltaðar þorskafurðir í Suður-Evrópu fyrir aðila í virðiskeðju saltaðs þorsks í Barcelona. Vel var mætt á fundinn, u.þ.b. 80 manns í heildina, þar á meðal innflytjendur og dreifingaraðilar, veitingahúsaeigendur og kokkar, smásalar og útvatnarar, auk fulltrúa frá stórmörkuðum. 

Katalónía er sterkasta markaðssvæðið á Spáni fyrir íslenskan þorsk eða bacalao og hefur verið lykilsvæði í markaðsstarfi undir merkjum markaðsverkefnisins. Í rannsóknum sem Íslandsstofa hefur látið vinna, kemur fram að Ísland er það land sem almenningur nefnir fyrst þegar spurt er um upprunaland "bacalao".

Guðný Káradóttir og Kristinn Björnsson fluttu erindi fyrir hönd Íslandsstofu og Agnar Brynjólfsson hjá Vísi var fundarstjóri. Guðný kynnti markmið og stefnu sem unnið er eftir í markaðsverkefninu. Sýnt var kynningarmyndband sem fjallar um áherslur, aðgerðir og árangur verkefnisins. Kristinn kynnti niðurstöður markaðsrannsókna á stöðu íslenska þorsksins í Barcelona, en helstu niðurstöður eru að þegar á heildina er litið er staða íslenska fisksins mjög sterk bæði hvað varðar sýnileika á sölustöðum og vörumerkjavitund meðal neytenda. Aðrir fyrirlesarar voru Mario Cañizal sérfræðingur í neytendahegðun og Isabel Lugo frá CETT matreiðsluskólanum, sem talaði um samstarf skólans við Bacalao de Islandia og hvernig báðir aðilar hafa notið góðs af því. Nemandi við skólann sagði frá reynslu sinni en hann starfaði sl. sumar á veitingastað í Stykkishólmi. 

Í framhaldinu var boðið upp á “show-cooking” frá Paco Pérez, Michelin-kokki frá Miramar veitingastaðnum í Girona og smökkun, þar sem íslenskur saltaður þorskur var í aðalhlutverki. Í lokin voru svo bornar fram veitingar og fólki gafst tækifæri til þess að eiga óformlegt spjall. Viðbrögð fundargesta voru mjög jákvæð og margir gáfu sig á tal við starfsfólk Íslandsstofu með fyrirspurnir um frekara samstarf í framhaldinu.