Fundur 7. desember um GSSI og vottun ÁF

Fundur 7. desember um GSSI og vottun ÁF

1 desember 2016

Í nóvember hlaut vottunarverkefni ÁF viðurkenningu af hálfu GSSI eftir ítarlega úttekt þar sem vottunarverkefni ÁF stóðst allar lykilkröfur sem settar eru fram af hálfu GSSI. Kröfur GSSI byggja fyrst og fremst á samþykktum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sþ (FAO).

Miðvikudaginn 7. desember nk. munu Ábyrgar fiskveiðar (ÁF) í samstarfi við Íslandsstofu bjóða til kynningarfundar á GSSI verkefninu (Global Sustainable Seafood Initiative) og vottun ábyrgra fiskveiða undir merkjum Iceland Responsible Fisheries. Aðalfyrirlesari á fundinum verður Herman Wisse framkvæmdastjóri hjá GSSI en einnig munu Gunnar Tómasson framkvæmdastjóri hjá Þorbirninum og Hrefna Karlsdóttir verkefnisstjóri hjá ÁF flytja erindi.

Fundurinn verður á Hótel Nordica, H sal, 7. des kl. 13:00-14:30

Allir eru velkomnir á fundinn en nauðsynlegt er að skrá sig með því að senda póst á netfangið islandsstofa@islandsstofa.is eða fylla út form á vefnum.

Dagskrá fundarins:

  • Herman Wisse: GSSI Building Confidence in Certified Seafood
  • Hrefna Karlsdóttir: Vottun IRF og þýðing úttektar fyrir vottunarverkefnið
  • Gunnar Tómasson: Sjónarmið framleiðandans

Hvað er GSSI?

GSSI er alþjóðlegur samvinnuvettvangur verslanakeðja, félagasamtaka, sérfræðinga og opinberra og alþjóðlegra stofnana. Markmiðið með starfsemi GSSI er að auka gagnsæi vottunar og auðvelda samanburð og efla þannig traust og stuðla að upplýstu vali í viðskiptum með vottaðar sjávarafurðir.

Vottun undir merkjum Iceland Responsible Fisheries

Vottun Ábyrgra fiskveiða ses (ÁF) undir merkjum Iceland Responsible Fisheries (IRF) felur í sér faglega og óháða vottun þriðja aðila á fiskveiðum Íslendinga. Tilgangur vottunar er að sýna fram á með gagnsæjum hætti að staðið er að fiskveiðum og fiskveiðistjórnun á Íslandi á ábyrgan og viðurkenndan hátt í samræmi við kröfur Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO. Vottunin ÁF staðfestir ábyrga fiskveiðistjórnun og góða umgengni um auðlindir sjávar.