Vottunarverkefni ÁF hlýtur viðurkenningu af hálfu GSSI

Vottunarverkefni ÁF hlýtur viðurkenningu af hálfu GSSI

8 nóvember 2016

Fyrr á árinu sóttu Ábyrgar fiskveiðar ses (ÁF) um  úttekt af hálfu Global Sustainable Seafood Initiative (GSSI) á vottunarverkefni ÁF (Iceland Responsible Fisheries Management Certification Programme). Í dag, 8. nóv., tilkynnti stjórn GSSI að vottunarverkefni ÁF hefði staðist allar lykilkröfur til að hljóta viðurkenningu af hálfu GSSI. Úttektarferlið fól m.a. í sér heimsókn óháðra sérfræðinga frá GSSI og úttekt á starfsemi og fiskveiðistaðli ÁF.

Markmiðið með starfsemi GSSI er að auka gagnsæi vottunar og auðvelda samanburð og efla þannig traust og stuðla að upplýstu vali í viðskiptum með vottaðar sjávarafurðir.

Hrefna Karlsdóttir hjá Ábyrgum fiskveiðum segir þetta mikilvægan áfanga: „Viðurkenning af hálfu GSSI staðfestir að íslensk vottun undir merkjum Iceland Responsible Fisheries stenst mat byggt á alþjóðlegum kröfum um fiskveiðistaðla og verklag.“

Alls eru lykilkröfur í úttektinni 143 talsins, sem settar eru fram í s.k. mælistiku GSSI (GSSI Global Benchmark Tool). Kröfurnar byggja á Siðareglum Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) um ábyrgð í fiskimálum og Leiðbeiningum FAO um umhverfismerkingar og vottun vegna veiða úr villtum fiskistofnum.

GSSI er alþjóðlegur samvinnuvettvangur verslanakeðja, félagasamtaka, sérfræðinga og opinberra og alþjóðlegra stofnana. Þau fyrirtæki sem eru félagar í GSSI hafa skuldbundið sig til að viðurkenna öll þau vottunarverkefni sem standast GSSI úttekt þegar kemur að sölu sjávarafurða. Meðal þeirra eru verslunarkeðjur og fyrirtæki eins og Ahold Delhaize, Morrisons, Metro Group, High Liner Foods og Trident.

Fréttatilkynning frá GSSI um viðurkenningu á vottunarverkefni ÁF.

Hér má lesa úttektarskýrslu GSSI á vottunarverkefni ÁF.

Nánari upplýsingar veitir Hrefna Karlsdóttir hjá Ábyrgum fiskveiðum, hrefna@irff.is, sími 661 4555.