Veiðar Íslendinga á þorski, ýsu og ufsa hljóta viðhaldsvottun skv. IRFM staðli

Veiðar Íslendinga á þorski, ýsu og ufsa hljóta viðhaldsvottun skv. IRFM staðli

23 febrúar 2016

Óháð vottunarnefnd á vegum írsku vottunarstofunnar Global Trust SAI Global hefur lokið árlegri úttekt til viðhaldsvottunar á veiðum á Íslandsmiðum á þorski (Gadus morhua), ýsu (Melanogrammus aeglefinus) og ufsa (Pollachius virens). Vottunin er samkvæmt íslenska staðlinum um ábyrgar fiskveiðar (Icelandic Responsible Fisheries Management Specification).

Tilgangurinn með árlegri viðhaldsvottun er að vakta mögulegar breytingar sem gætu hafa átt sér stað við stjórn fiskveiða, á mati á stærð og ástandi fiskistofnanna og á öðrum umhverfisþáttum frá síðustu úttekt. Í framhaldi af úttektinni er metið hvort veiðarnar standist enn þær kröfur sem gerðar voru við vottun þessara veiða árið 2015.

Staðallinn (kröfulýsingin) sem vottað er eftir byggir efnislega á samþykktum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO). Óháð mat vottunarstofunnar var unnið eftir ISO65 faggiltu kerfi Global Trust SAI Global og veitir trúverðuga vottun þriðja aðila á ábyrgri fiskveiðistjórnun.

Með þessum úttektum hafa veiðar á þorski, ýsu og ufsa, sem vottaðar eru samkvæmt staðlinum um ábyrgar fiskveiðar, staðist árlega úttekt til viðhaldsvottunar, en gullkarfinn (Sebastes norvegicus) stóðst slíka úttekt á liðnu ári. Vottunarskýrslurnar eru aðgengilegar á vefnum, þorskur, ýsa og ufsi.

Nánari upplýsingar um vottunina veita Finnur Garðarsson, verkefnisstjóri hjá Ábyrgum fiskveiðum ses, finnur@irff.is, gsm 896 2400 og Guðný Káradóttir, markaðsstjóri IRF, forstöðumaður hjá Íslandsstofu, gudny@islandsstofa.is, gsm 693 3233.