Valkostur í vottunarmálum mikilvægur

Valkostur í vottunarmálum mikilvægur

23 mars 2012

Uppruni íslensks sjávarfangs, vottun og ábyrgar fiskveiðar voru kynntar undir merkjum Iceland Responsible Fisheries (IRF) á sjávarútvegssýningunni í Boston sem haldin var 11.-13. mars sl. Íslandsstofa hafði umsjón með sameiginlegri þátttöku íslenskra fyrirtækja á sérstökum þjóðarbás sem IRF var á. Meiri aðsókn var að sýningunni en verið hefur undanfarin ár og ánægja meðal íslensku þátttakendanna.

Ísland og Alaska tóku höndum saman og héldu sameiginlegan hádegisverðarfund 12. mars undir yfirskriftinni The evolution of SUSTAINABILITY and the role of CHOICE. Ray Riutta framkvæmdastjóri ASMI, Alaska Seafood Marketing Institute, bauð gesti velkomna fyrir hönd ASMI og IRF og kynnti fyrsta ræðumann, ríkisstjóra Alaska, Sean Parnell.

Parnell sagði Alaska ávallt hafa lagt áherslu á ábyrga nýtingu auðlinda hafsins, og ákvæði um slíkt í stjórnarskrá frá upphafi árið 1959.  Alaska hefur farið sömu leið í vottun og Íslendingar og fagnaði Parnell frumkvæði Íslendinga á þessu sviði. Hann lagði ríka áherslu á það sjónarmið að hafa trúverðuga valkosti í vottun á fiskveiðum líkt og í öðrum greinum. Vottun byggð á alþjóðlega samþykktum viðmiðunum sem mótuð eru á vettvangi Alþjóða matvælastofnunarinnar (FAO) hefði slíkan trúverðugleika. Ekki ætti að treysta á einn einstakan aðila til að meta hvað eru ábyrgar veiðar og hvaða fiskur væri ásættanleg fyrir neytendur út frá umhverfisverndarsjónarmiðum.

Guðný Káradóttir markaðsstjóri Iceland Responsible Fisheries fjallaði um upprunamál og virði þess að kynna uppruna samhliða ábyrgum fiskveiðum í markaðsstarfi. Hún sýndi dæmi um hvernig smásölukeðjur í Evrópu hafa nýtt sér upprunamerki og vottun á íslenskum þorski í sínu markaðsstarfi sem gæti einnig verið valkostur í markaðsstarfi í Norður Ameríku.

John Sackton flutti erindi undir heitinu Maturing of the Seafood Sustainability Movement. Hann fjallaði m.a. um hlutverk yfirvalda í stjórnun fiskveiða og þróun í markaðsstarfi út frá vottunarmálum. Hann benti á að ábyrgðin á nýtingu auðlinda hafsins væri hjá yfirvöldum sem einnig fjármögnuðu vísindarannsóknir og settu nýtingarstefnu. Hann talaði um að hægt væri að stjórna veiðum á grundvelli FAO viðmiða til að komast hjá ofveiði og rakti dæmi þess með rannsóknum frá Dr. Ray Hilborn. Sackton sagði að þegar vottun á fleiri fiskstofnum væri orðin að veruleika, myndi vottun ekki lengur veita sama samkeppnisforskot á markaði og áður. Þá kæmi að því að aðgreina sig í markaðsstarfi út frá öðrum þáttum, s.s. uppruna, gæðum og ferskleika. Þessum eiginleikum væri ekki hægt að miðla með hefðbundnu umhverfismerki.

Hægt að lesa blogg um fundinn frá Ray D. Palmer á Seafood Source.com.