Þýskir kokkar kynna sér íslenskar afurðir

Þýskir kokkar kynna sér íslenskar afurðir

25 september 2017

Íslandsstofa kom að skipulagningu og móttöku nítján þýskra matreiðslumanna sem komu til Íslands nýlega til að kynna sér hráefni, eldamennsku og fiskveiðar. Um er að ræða námskeið eða fræðsluferð sem þýska fyrirtækið Deutsche See skipuleggur en tilgangurinn er að kynna fyrir hópnum íslenskt sjávarfang, ábyrgar fiskveiðar, skoða aðstæður í veiðum og vinnslu og veita innblástur um matreiðslu.

Hópurinn fór um Suðurland og til Vestmanaeyja og heimsótti fiskvinnslur í Eyjum og í Reykjavík. Í Salt eldhúsi héldu tveir landsliðskokkar, Bjarni Siguróli Jakobsson og Jóhannes Steinn Jóhannesson, matreiðslunámskeið og fræddu gestina um hráefnið.  Þýski hópurinn tók virkan þátt í eldamennskunni og spurðu margs, hvaðan hráefnið kæmi og um aðferðir þær sem nýttar eru í eldamennskunni hér á landi. Á matseðlinum var m.a. þorskur, gullkarfi, lax, lambakjöt og í eftirrétt var boðið upp á íslenskan skyrrétt með ferskum, nýtíndum bláberjum.

Gestirnir fengu að gjöf svuntu með auðkennismerki vottunar Ábyrgra fiskveiða (Iceland Responsible Fisheries) og íslenskar matvörur, ásamt kynningarefni um íslenskan sjávarútveg og matvæli.

Mikil ánægja ríkti með heimsóknina og er þegar farið að leggja drög að Íslandsferð fyrir nýjan hóp á næsta ári.