Íslenskur þorskur á borgarhátíð í Barcelona

Íslenskur þorskur á borgarhátíð í Barcelona

16 október 2017

Í tilefni þess að Reykjavík og Ísland var í sviðsljósinu á La Mercé menningarhátíðinni í Barcelona á Spáni 22.-25. september skipulagði Íslandsstofa viðamikla kynningu á íslenskum fiski undir merkjum Bacalao de Islandia í septembermánuði og landkynningu undir merkjum  Inspired by Iceland. Um tvær milljónir manna sækja þá 600 viðburði sem eru í boði víðsvegar um borgina. 

"Smakkaðu og deildu leyndarmáli íslenska þorsksins (bacalao)" er yfirskrift markaðsverkefnisins sem Íslandsstofa hefur sinnt með framleiðendum og söluaðilum á íslenskum fiski inn á Spánarmarkað, Portúgal og Ítalíu, síðustu fjögur ár. Markmiðið er að styrkja enn frekar ímynd Íslands sem upprunalands gæðaafurða á þessum lykilmarkaði og byggja upp sambönd við matreiðslumenn á svæðinu sem eru tilbúnir að hampa íslenskum uppruna á veitingastöðum sínum. Af þessu tilefni var litla Eldhúsið flutt á einn aðal vettvang hátíðarinnar, Parc Ciutadella þar sem almenningur gat fræðast um og smakkað gómsæta rétti úr íslenska fiskinum. Einnig buðu fjórtán veitingastaðir í grenndinni upp á íslenskan þorsk á matseðli sínum. 

Leyndarmál íslenska þorskins - Islandia al Plat

Islandia al Plat var yfirskrift samstarfsverkefnis Bacalao de Islandia og DAMM brugghússins í Barcelona sem fór fram samhliða hátíðinni. Fjórtán veitingastaðir í nágrenni Parc Ciutadella buðu upp á rétti úr íslenska fiskinum og Inedit bjórnum frá DAMM. Gestir á veitingstöðunum gátu keypt bjór og fisk á fimm evrur og skaffaði verkefnið gæðahráefni í réttina. Markmiðið var að gefa fólki tækifæri á að smakka og deila reynslu sinni á samfélagsmiðlum, en hægt var að vinna ferð til Íslands ef mynd var deilt á Facebook. 

Fjölmiðlum var boðið á kynningu þann 14. september á einum veitingastaðanna þar sem samstarfið var kynnt, sagt frá fiskinum, landinu, veiðum og vinnslu og hvernig samfélög í þorpum víðsvegar um Ísland taka höndum saman um að tryggja gæðaafurð fyrir spænska neytendur. Blaðamenn fengu að smakka réttina frá öllum fjórtán stöðunum og völdu síðan besta réttinn. Kokkinum sem töfraði fram vinningsréttinn, verður boðið til Íslands þar sem hann fær tækifæri til að kynnast upprunalandinu. Þetta er liður í að eignast öfluga málsvara fyrir íslenska fiskinn úr röðum kokka á helstu mörkuðum.

Umfjöllun í fjölmiðlum um Ísland og íslenskar afurðir  sem varð í kringum þetta framtak er geysilega verðmæt. Umfjöllun í fjölmiðlum í kjölfar kynningar á Islandia al Plat náði til a.m.k. 5,2 milljóna manna og er uppreiknað auglýsingavirði umfjöllunarinnar í fjölmiðlum u.þ.b. 41.000 evrur. Til viðbótar má nefna að La Mercé hátíðin kynnti þátttöku Reykjavíkurborgar vel fyrir fjölmiðlum, en fjöldi menningarviðburða var í boði frá Íslandi. Auglýsing birtist í dagskrárhefti La Mercé, sem gefið var út í 300.000 eintökum og aðgengilegt á opinberri vefsíðu hátíðarinnar.

Litla rauða Eldhúsið á vettvangi

Hið víðförula litla rauða Eldhús, sem notað hefur verið í mörgum löndum í kynningarstarfi fyrir Ísland og íslenskar afurðir, var miðstöð kynningarinnar í Parc Ciutadella. Þar gátu gestir og gangandi fræðst um Ísland og hinn margrómaða "bacalao" frá Íslandi, en íslenskur saltfiskur (eða þorskur) hefur mjög sterka stöðu í Katalóníu. Hugguleg og heimilisleg stemming skapaðist sem var í skemmtilegu ósamræmi við glaum og skarkala borgarinnar. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Kristján Andri Stefánsson sendiherra Íslands gagnvart Spáni voru meðal þeirra sem tóku þátt í dagskránni.  Markaðsefni tengt þorskinum og Íslandi sem áfangastað ferðamanna var dreift og starfsfólk ræddi við gesti.

Bein útsending var á Facebooksíðu Bacalao de Islandia frá Eldhúsinu og leikir á samfélagsmiðlum. Meðal vinninga var treyja merkt Eiði Smára Guðjohnsen, sem áður lék með Barcelona við góðan orðstír, og var mikill áhugi á þeim vinningi. 

Á útvarpsstöðinni RAC1 er síðdegisþáttur sem ber heitið "Islandia" eða Ísland, og var hann með viðtöl við fulltrúa Íslandsstofu og bauð hlustendum sem eru um 158.000 á dag, að koma í Eldhúsið og smakka fiskinn okkar.