Íslenski þorskurinn kynntur á viðburðum í Madrid í janúar

Íslenski þorskurinn kynntur á viðburðum í Madrid í janúar

2 febrúar 2017

Madrid Fusión  er ein stærsta og mikilvægasta fagráðstefnan fyrir veitingageirann á Spáni. Hana sækja bæði frægir og upprennandi kokkar frá öllum hornum Spánar og eigendur og rekstraraðilar veitingastaða. 

Markaðsverkefnið Bacalao de Islandia tók þátt í annað sinn, og var með bás á sýningu sem haldin var samhliða ráðstefnunni var var haldin dagana 23.-25. janúar sl. í Palacio Municipal de Congresos í Madrid. Gestir voru um 10.000 og segja má að þeir komi til að kynna sér strauma, stefnur og nýjungar í veitingageiranum.

Eitt af markmiðum markaðsverkefnisins er að treysta orðspor meðal matreiðslumanna erlendis og efla samstarf við veitingastaði. Þátttakan í Madrid Fusion er aðgerð sem miðar að því að auka vitund um gæðahráefni frá Íslandi meðal matreiðslumanna og annarra lykilaðila í matarheiminum á Spáni. Þannig má vinna að því að styrkja stöðu og treysta orðspor íslenskra þorskafurða á Spánarmarkaðinum þar sem samkeppnin er mikil.

Á bás Bacalao de Islandia á sýningunni var gestum boðið að smakka fjölbreytta rétti úr íslenska fiskinum, á alla sýningardagana. Einnig voru leikir á samfélagsmiðlum og var upplýsingum um íslensku afurðirnar dreift til gesta. Fjölmargir komu á básinn og sýndu íslenskum þorski áhuga, þar á meðal kokkar, eigendur veitingahúsa, innflytjendur og heildsalar, auk blaðamanna og fjölmiðlafólks. Fjöldi manns skráðu sig í gagnabanka okkar, og tóku þar með þátt í happdrætti þar sem vinningur er ferð til Íslands. Þar að auki heimsóttu u.þ.b. 50 manns básinn sem höfðu tekið þátt í getraun okkar í fyrra og sóttu glaðning sem beið þeirra. Um 200 nýjir fylgjendur bættust við á Facebooksíðu verkefnisins sem hefur nú náð10.000 fylgjendum sem eru áhugasamir um Ísland, íslenska fiskinn og eldamennsku. Þar er reglulega miðlað efni frá upprunalandinu Íslandi, uppskriftum og öðru gagnlegu efni.

Fiskur á ferðasýningu

Þriðja árið í röð var gestum sem heimsóttu bás Íslands á FITUR ferðasýninguna í Madrid boðið að smakka girnilega rétti úr söltuðum þorskafurðum frá Íslandi. Sýningin fór fram í Madrid 18.-22. janúar sl. Ferðaskipuleggjendur komu til að kynna sér það sem Ísland hefur upp á að bjóða og er matur órjúfanlegur hluti af upplifuninni. Almenningur fékk einnig tækifæri til að koma á sýninguna. Þátttakan á FITUR er skipulögð af ferðaþjónustusviði Íslandsstofu sem skipuleggur þátttöku íslenskra ferðaþjónustuaðila í sýningunni, en matvælasvið Íslandsstofu og Bacalao de Islandia studdu við kynninguna á fiskinum.

Smakkið mæltist vel fyrir, og greinilegt að ráðstefnugestir eru farnir að búast við því að fá að bragða gómsætan saltaðan þorsk á Íslandsbásnum. Bæklingum og öðru markaðsefni tengdu fiskinum var dreift á viðburðinum. 

Sýningin er stór en um 125.000 aðilar í ferðaþjónustu heimsækja hana árlega og eru sýnendur um 9.600, auk þess sem að rúmlega 7.000 blaðamenn koma á sýninguna.