Sjávarafurðir: tækifæri í Brasilíu
Í tilefni af fyrirhugaðri sendinefnd sem Íslandsstofa skipuleggur til Sao Paulo í Brasilíu í október, verður haldinn kynningarfundur á brasilíska markaðinum fyrir sjávarafurðir mánudaginn 22. september kl. 15-16.30 hjá Íslandsstofu að Sundagörðum 2, 7.hæð.
Brasilía er stærsta og fjölmennasta land Suður Ameríku með rúmlega 200 milljónir íbúa. Í landinu er vaxandi millistétt, kaupmáttur hennar að aukast og því er áhugavert að skoða þennan markað fyrir íslenskar sjávarafurðir.
Kristján Aðalsteinsson nemandi í MBA námi við Háskóla Íslands mun kynna verkefni nemenda sem fólst í skoðun á markaðsaðstæðum og möguleikum á útflutningi á sjávarafurðum til Brasilíu, einkum saltfiskafurðum. Greint verður m.a. frá reglum og gjöldum sem greiða þarf við innflutning og sagt frá menningu og viðskiptaháttum í landinu.
Guðný Káradóttir forstöðumaður sjávarútvegs og matvælasviðs Íslandsstofu mun segja frá dagskrá sendinefndar í tilefni af opinberri heimsókn utanríkisráðherra til Brasilíu 14.-16. október. Ferðin, sem er ætluð fyrirtækjum í framleiðslu og sölu á sjávarafurðum, byggir annars vegar á kynningum fyrir væntanlegum kaupendum um Ísland og íslenskan sjávarútveg, ábyrgar fiskveiðar og sérstöðu íslenskra afurða og hins vegar að kynna viðskiptaumhverfið í Brasilíu fyrir þátttakendum í ferðinni. Fyrirtækin fá einnig tækifæri til að kynna sig og eiga fundi með áhugasömum kaupendum.
Allir áhugasamir um útflutning sjávarafurða til Brasilíu eru boðnir velkomnir á fundinn. Vinsamlegast skráið mætingu með því að senda póst á islandsstofa@islandsstofa.is, eða hringið í síma 511 4000.
Nánari upplýsingar veita Guðný Káradóttir, gudny@islandsstofa.is, Björgvin Þór Björgvinsson, bjorgvin@islandsstofa.is og Þorleifur Þór Jónsson, thorleifur@islandsstofa.is.