Saltfiskur kynntur á Suður Ítalíu

Saltfiskur kynntur á Suður Ítalíu

4 október 2014

Dagana 26.-29. september tók Íslandsstofa í samstarfi við Íslenska saltfiskframleiðendur þátt í fjölsóttri saltfiskhátíð í Somma Vesuviana á Ítalíu auk þess að kynna íslenskan saltfisk á einu fjölsóttasta torgi Napólíborgar. Ítalía er mikilvægur markaður fyrir íslenskar saltfiskafurðir, sérstaklega Suður-Ítalía, og er kynningin liður í að efla þekkingu á hágæðaafurðum frá Íslandi. 

Saltfiskhátíðin „Somma e Sua Eccellenza il Baccalà“, sem u.þ.b. 5.000 manns heimsóttu, var haldin í bænum Somma Vesuviana sem er í úthverfi. Hátíðin náði bæði til almennings og lykilaðila í saltfiskviðskiptum á Napólísvæðinu og Suður-Ítalíu. Nokkrir íslenskir framleiðendur og söluaðilar tóku þátt í hátíðinni auk sendiherra Íslands í París, Berglindar Ásgeirsdóttur en Ítalía heyrir undir hennar sendiráð. Við opnun hátíðarinnar var haldið 300 manna kvöldverðarboð fyrir fulltrúa yfirvalda, fjölmiðlafólk, innflytjendur og veitingahúsaeigendur þar sem sendiherra hélt m.a. ræðu um mikilvægi saltfiskviðskipti landanna. Michelin kokkurinn Marianna Vital hafði yfirumsjón með veislunni.  

Eldhúsið, sem Íslandsstofa hefur notað áður með góðum árangri í sínu kynningarstarfi vakti mikla athygli á saltfiskhátíðinni en það er skreytt munum og myndum frá saltfiskvinnslu Íslendinga í gegnum árin. Mikill fjöldi fólk gæddi sér á sælgæti sem unnið er að hluta til úr saltfiski auk þess að kynnast betur íslenskum saltfiski og Íslandi almennt. Þá buðu átta veitingastaðir á svæðinu upp á mismunandi saltfiskrétti úr íslensku gæðahráefni sem almenningur gat keypt gegn vægu gjaldi.

Eldhúsinu var einnig komið fyrir á einu fjölfarnasta torgi Napólíborgar. Matreiðslumaðurinn Vincenzo Russo frá þekktasta saltfiskveitingastað í Napólí, Baccalaria, sá um að matreiða saltfisksmakk fyrir Napólíbúa sem svo sannarlega tóku íslenska fiskinum opnum örmum. Eftir kynninguna á torginu í Napólí var íslensku þátttakendunum og ítölskum kaupendum boðið til kvöldverðar á veitingastaðnum Baccalaria. Þar ávarpaði m.a. Skjöldur Pálmason, formaður Íslenskra saltfiskframleiðenda, gesti og nefndi mikilvægi Napólísvæðisins fyrir íslenskan saltfisk og hversu samstarf ólíkra aðila í þessum kynningum hefði gengið vel.

Auk þessara kynninga á Napólísvæðinu verða vef- og samfélagsmiðlar notaðir markvisst á Ítalíu við að kynna íslenskan saltfisk en mikil áhersla er lögð á að kynna gæði og uppruna vörunnar. Hér fyrir neðan má sjá vefsíðu á ítölsku og tengla inn á samfélagsmiðla á Ítalíu.

Facebook

Youtube

Vefsíða


Nánari upplýsingar veita:

Guðný Káradóttir, gudny@islandsstofa.is, sími 511 4000

Björgvin Þór Björgvinsson, bjorgvin@islandsstofa.is, sími 511 4000