Saltfiskur kynnir Ísland á Spáni
Íslandsstofa skipulagði þátttöku sjö ferðaþjónustufyrirtækja á ferðasýningunni Fitur sem haldin var í Madrid dagana 28. janúar til 1. febrúar. Á sýningunni var boðið var upp á sælkera smárétti (Tapas) úr úrvals íslenskum saltfiski. Má þar nefna hráan kryddleginn saltfisk, saltfisksbollur, saltfiskjógúrt, saltfisk með ristuðum hnetum og margt fleira og rann saltfiskurinn ljúflega niður í Madridbúa og mynduðst raðir við íslenska básinn. Smakkið er tilkomið vegna samstarfs sviðs ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu og matvælasviðs sem vinnur í samstarfi við íslenska saltfiskframleiðendur og útflytjendur að því að kynna saltaðar þorskafurðir í Suður Evrópu undir kjörorðinu „Taste and share the secret of Icelandic bacalao“.
Spánverjar sýndu Íslandi mikinn áhuga á sýningunni og kryddaði saltfiskurinn enn frekar þennan mikla áhuga. Falleg náttúra og úrvals fiskur úr Norður-Atlantshafi er blanda sem Spánverjar kunna afar vel að meta.