Markaðs- og kynningarstarf

9 desember 2011

Markaðs- og kynningarstarf Iceland Responsible Fisheries (IRF) hefur verið í höndum Íslandsstofu í rúmlega eitt ár. Á þeim tíma hefur verið unnið í að kynna verkefnið með ýmsum hætti. Við höfum tekið þátt í sjávarútvegssýningum bæði á Íslandi, í Boston, Brussel og  Vigo á Spáni. Haldnir hafa verið kynningarfundir fyrir erlenda kaupendur í London, Boston, Brussel og á Íslandi í september samhliða Íslensku sjávarútvegssýningunni. Þar var fullt var út úr dyrum og komust færri að en vildu.

Vefsíðan ResponsibleFisheries.is hefur verið endurgerð og er hún með ítarlegum upplýsingum á ensku og íslensku. Unnið að því að þýða hana á fleiri tungumál, en nú þegar eru ákveðnar upplýsingar fyrir hendi á vefsíðunni á fleiri tungumálum í pdf skjölum.

Ýmsir bæklingar hafa verið gefnir út og geta aðilar að IRF pantað eftirtalda bæklinga hjá undirritaðri:

  • Ábyrgar veiðar, fiskur til framtíðar“ – fjórblöðungur um IRF verkefnið, tilgang þess og fyrirkomulag á íslensku, ensku, þýsku og spænsku
  • Ábyrgar þorskveiðar staðfestar með vottun“ – einblöðungur um vottun á þorskveiðum, á íslensku, ensku, frönsku, spænsku og þýsku
  • Icelandic Salt Fish“ – fjórblöðungur um vinnslu á saltfiski úr fersku íslensku hráefni, á ensku og spænsku
  • Chain of Custody Certification, Practical Guidelines“ – einblöðungur, hagnýtar leiðbeiningar vegna umsóknar um vottun á rekjanleika, á ensku

Við bjóðum aðilum að IRF verkefninu upp á aðstoð við kynningar og höldum gjarnan fundi með erlendum aðilum sem óska upplýsinga um hvernig staðið er að fiskveiðistjórnun á Íslandi eða vottun og öflum sértækra upplýsinga fyrir hagsmunaðila í útflutningi.

Unnið er að gerð á kvikmynduðu efni um íslenskan uppruna sjávarfangs, ábyrgar fiskveiðar og vottun. Það efni verður aðgengilegt á vefnum og víðar, s.s. á Vimeo.com.

Vinsamlegast hafið samband við Guðnýju Káradóttur markaðsstjóra, sími 511 4000, gudny@islandsstofa.is um nánari upplýsingar og aðstoðar við kynningar o.þ.h.