Ítalskir kokkanemar kunnu að meta íslenska þorskinn

Ítalskir kokkanemar kunnu að meta íslenska þorskinn

2 nóvember 2018

Í lok október fór fram kynning á íslenskum þorski og matreiðslu hans í matreiðsluskólanum IPSEOA Vincenzo Gioberti í Róm. Þetta er fjórtándi skólinn í Suður Evrópu sem fær slíka kynningu.

Í skólanum eru rúmlega 2000 nemendur í heildina sem læra til ýmissa starfa sem tengjast hótel og veitingageiranum. Um 70 nemendur sem eru að læra kokkinn fengu kynningu á íslenska þorskinum og leyndarmálinu á bak við gæðin. Í kjölfarið fengu 25 upprennandi kokkar kennslu í matreiðslu á þessu vinsæla hráefni, sem skipar merkan sess í ítalskri matreiðslu. Kynningin er hluti af markaðsstarfi undir merkjum Baccalá Islandese, markaðsverkefni fyrir saltaðar þorskafurðir í Suður Evrópu sem Íslandsstofa sér um fyrir hönd framleiðenda og útflytjenda. 

Matreiddir voru fjórir réttir undir handleiðslu Vincenzo Russo matreiðslumeistara frá veitingastaðnum Baccalaria í Napoli. Hann hefur verið traustur fulltrúi verkefnisins undanfarin ár, og heimsótti meðal annars Ísland árið 2016 til að kynnast upprunalandinu betur. Nemendurnir voru mjög áhugasamir og fengu svo að njóta afraksturs eldamennskunnar í lokin og gæddu sér á gómsætum réttunum. 

Þetta er fjórtándi skólinn sem markaðsverkefnið heimsækir með þessum hætti, en þessar heimsóknir eru mikilvægur liður í því að ungir kokkanemar kynnist því að vinna með gæða hráefni og tengi við upprunalandið Ísland.