Íslenskur þorskur á sviðinu í Basque Culinary Center

Íslenskur þorskur á sviðinu í Basque Culinary Center

7 desember 2017

Nýverið skipulagði Íslandsstofa kynningar í tveimur kokkaskólum á Spáni undir merkjum Bacalao de Islandia, markaðssamstarfi fyrir íslenskar þorskafurðir. Báðir eru þessir skólar staðsettir í San Sebastián/Donostia, Escuela de Cocina Luis Irizar og Basque Culinary Center. Kynningarnar mæltust báðar afar vel fyrir og kom fram hjá skólastjórnendum vilji til frekara samstarfs í framtíðinni. María José Bilbao, ræðismaður Íslands í Bilbao, aðstoðaði við skipulagningu þessara viðburða.

Basque Culinary Center er stór og áhrifamikill kokkaskóli sem er þekktur um gjörvalla Evrópu sem einn sá fremsti á sínu sviði síðan hann var stofnaður árið 2009. Fjöldi heimsþekktra kokka kemur að stjórn og stenumótun skólans, og nægir þar að nefna Ferran Adriá, Joan Roca og Eneko Atxa. Rúmlega 60 nemendur voru viðstaddir kynninguna á íslenska þorskinum í aðalsal skólans. Í kjölfarið fengu nemendur sýnikennslu frá Mikel Población, sem er einn af "sendiherrum" Bacalao de Islandia,  kokkur á veitingastaðnum Etxanobe í Bilbao. Mikel hefur unnið mikið með markaðsverkefninu og kom meðal annars til Íslands árið 2014 til þess að kynna sér veiðar, vinnslu og matseld á Íslandi, og því fáir betur til þess fallnir að kynna gæði íslensks þorsks.

Luis Irizar er lítill fjölskyldurekinn skóli með 50 nemendum sem nýtur mikillar virðingar á svæðinu. Spænski stjörnukokkurinn Josemi Olazabalaga, eigandi veitingastaðarins Aizian í Bilbao, eldaði þrjá rétti með nemendum í æfingaeldhúsi skólans að viðstöddum sjálfum stofnanda skólans, Luis Irizar. Olazabalaga hefur meðal annars unnið til verðlauna fyrir pil-pil rétt sína (klassískur spænskur saltfiskréttur).

Undanfarin þrjú ár hefur markaðsverkefnið unnið markvisst með kokkaskólum á lykilmörkuðum sínum sem eru Spánn, Ítalía og Portúgal. Skólarnir sem hafa verið heimsóttir eru nú orðnir 11 talsins, unnið hefur verið með átta kokkum og rúmlega 1000 nemendur fengið kynningu. Markmiðið er að ná til upprenndi matreiðslumanna, kynna hráefnið, lykilþætti í gæðaframleiðslunni og skapa jákvæða ímynd á íslenskum uppruna.