Íslenskur þorskur á norrænni hátíð í London

24 október 2017

Matur og matarmenning var í forgrunni í norrænni kynningu, The Great Nordic Feast, sem fram fór í London 19.-22. október. Uppselt var á alla viðburðina á hátíðinni og gæddu um 1.200 manns sér á norrænum mat, m.a. þorski, bleikju, hangikjöti og skyri frá Íslandi, ýmist af morgunverðarhlaðborði, í hádegisverð eða kvöldverð. 

Íslandsstofa tók þátt í að skipuleggja viðburðinn, sem fram fór í menningarmiðstöðinni Southbank Centre, í samstarfi við kynningarskrifstofur hinna Norðurlandanna. Markmiðið var vekja áhuga á Norðurlöndunum sem áfangastað ferðamanna. Fyrir utan þá gesti sem mætti á viðburðina, náði kynningin inn í fjölmiðla og á samfélagsmiðla sem mun skila aukinni athygli á Íslandi sem áfangastað sem býður upp á góða matarupplifun. 

Ylfa Helgadóttir, kokkur á veitingastaðnum Kopar og Marianna Leivaditaki, kokkur á veitingastaðnum Morito í London eldaðu þorsk og bleikju sem gestir voru hæstánægðir með. Uppskriftabæklingi og upplýsingum um veiðar á villtum fiski var dreift til gesta og blaðamanna. Marianna kom til Íslands í byrjun september, ásamt blaðamanni dagblaðsins Metro, og fékk þá að kynnast hvernig staðið er að veiðum og vinnslu hér á landi. Ágúst Einþórsson, bakari í Brauð og co. tók einnig þátt fyrir Íslands hönd. 

Viðburðinn hófst með boði fyrir blaðamenn fimmtudaginn 19. október, en daginn eftir matreiddi íslenska teymið fyrir gesti, ásamt kokkum frá Svíþjóð og Færeyjum. Gestir voru fræddir um réttina sem bornir voru fram, hráefnið og ýmis atriði um matarmenningu landanna. Á laugardeginum matreiddu kokkar frá Danmörku, Noregi og Grænlandi fyrir gestina og að lokum matreiddu kokkar frá Finnlandi og Álandseyjum á sunnudag.

Mikil ánægja var með viðburðinn meðal gestanna og virðist gæðahráefni frá Íslandi og hinum Norðurlöndunum, og norræn matarmenning falla vel í kramið hjá Bretum.